Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Page 61
nokkuð skiftar, að sjálfsögðu. Guðfræðilegrar og kirkjulegrar íhaldssemi
kendi nokkuð hjá sumum; en framsóknarandinn kom fram hjá miklu
fleirum.17
Aðdragandinn — barátta fyrir kirkjuþingi
Prestastefnan 1909 átti sér nokkurn aðdraganda. Sú staðreynd að lands-
stjórnin skyldi ekki veita frumvarpi meirihluta Kirkjumálanefndarinnar
um kirkjuþing fyrir þjóðkirkjuna brautargengi olli kirkjumönnum miklum
vonbrigðum.18 Sumarið 1908 beittu Sigurður P. Sívertsen og Einar Þórðarson
(1867-1909) áður prestur á Desjarmýri (fékk lausn 1907 vegna berklaveiki)
sér fyrir undirskriftasöfnun þess efnis að biskup Islands sem þá var Hallgrímur
Sveinsson gengist fyrir almennum kirkjufundi fyrir landið allt þegar á næsta
sumri „til þess að ræða sjálfstjórnar- og sjálfstæðismál kirkjunnar og ákveða
á hvaða grunni byggja skuli.“19 Voru kostirnir í því efni tveir að þeirra
mati eins og fram hafði komið við skipun Kirkjumálanefndarinnar 1904:
„Sjálfstæði og sjálfstjórn kirkjunnar sem þjóðkirkju í sambandi við ríkið“
eða „frjáls kirkja, án sambands við ríkið“.20
Vildu þeir að kosnir yrðu í það minnsta tveir fulltrúar hvers prófastdæmis,
prestur og leikmaður, að söfnuðir landsins legðu fram fé til að standa straum
af fundinum auk þess að leitað yrði eftir fjárstuðningi Alþingis, sem og að
slíkur fundur kæmi saman annað hvort ár og að minnsta kosti í fyrsta skiptið
á Þingvöllum.21 Kirkjan átti þannig sjálf að koma sér upp því kirkjuþingi
sem stjórnvöld synjuðu henni um árið áður þótt slík samkoma nýttist
aðeins til stefnumörkunar en ekki formlegra ákvarðana. Með þessu ætluðu
þeir kirkjunni að taka frumkvæði í umræðunni um framtíð þjóðkirkju-
skipanarinnar sökum þess að frumvarp meirihluta Kirkjumálanefndarinnar
um kirkjuþing hafði dagað uppi og að sá nefndarmaður sem fara vildi
17 Prestastefnana á Þingvelli 1909: 166.
18 Hjalti Hugason 2010: 95-98.
19 Almennur kirkjufundur. Bréf og áskorun 1908: 253. Sjá og Um kirkjufundinn að sumri 1909:
30-31.
20 Almennur kirkjufundur. Bréf og áskorun 1908: 252.
21 Almennur kirkjufundur. Bréf og áskorun 1908: 252, 253. Um kirkjufundinn að sumri 1909:
30. Almennur kirkjufundur kom fýrst saman á Þingvöllum 1934 og voru slíkir fundir haldnir á
tveggja til þriggja ára fresti fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Voru þetta frjálsir fundir presta
og leikmanna en styrktir af kirkjuráði. Rekja má forsögu þeirra til funda sóknarnefnda sem
Sigurbjörn A Gíslason átti frumkvæði að 1925. Pétur Pétursson 2000: 309.
59