Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Side 67
meirihlutakirkjuna vegna samfélagslegrar þýðingar hennar. Loks virðast
nefndarmenn hafa túlkað kirkjuskipanina á algerlega lýsandi hátt.52
Varðandi ráðstöfun kirkjueigna sagði nefndin:
Vér erum í engum efa um að sú skoðun alþingisnefndarinnar er alveg röng,
að ríkið geti með réttu lagt eignarhald á kirkjueignirnar. Því þótt mest af
þeim hafi gefið verið til hinnar kathólsku kirkju á meðan hún var þjóð-
kirkja hér á landi, þá er það auðskilið, að tilgangur gjafanna var sá, að efla
kristnihald í landinu, en um aðra trú en hina kathólsku var þá ekki að ræða.
Vér sjáum því ekki, að nokkur vafi geti á því leikið, að sú kirkjudeild, er á
hverjum tíma hefir flesta áhangendur í landinu, sé réttur arftaki kathólsku
kirkjunnar að eignum hennar. Og að því er sölu kirkjuhúsanna snertir, þá
getur varla komið til mála, að taka þau af söfnuðum, er þegar hafa á löglegan
hátt fengið þau til eignar og umráða.53 [Leturbr. HH]
í þessum orðum má að nýju greina þann skilning að þjóðkirkja og meiri-
hlutakirkja væru í raun eitt og hið sama og að kirkjuskipanin sé því túlkuð
sem lýsandi en ekki normerandi,54 Hér brást prestastefnunefndin annars
við nefndaráliti um aðskilnaðartillögu Jóns frá Hvanná. Þar var lagt til að
ríkið tæki við aðskilnað að sér umráð allra fjármuna kirkjunnar og seldi
meðal annars kirkjubyggingarnar því trúfélagi sem hæst verð byði. Arði af
eignunum skyldi síðan varið til að styrkja öll trúfélög í landinu í hlutfalli
við fólksfjölda í þeim.55 Gekk þessi tillaga lengra en hugmyndir Þórhalls
Bjarnarsonar. Þegar 1896 hafði hann látið í ljósi sambærilegan skilning
um ráðstöfun kirkjueigna almennt en áleit þó aðeins kristin trúfélög eiga
heimtingu á fjárframlagi vegna kirkjueigna er ríkið tæki við forræði yfir.56
Þá skoðun ítrekaði hann 1911.57 Þess má geta að 2009 töldu forstöðumenn
evangelísk-lútherskra fríkirkna aftur á móti að aðeins lúthersk trúfélög
ættu tilkall til afraksturs fornra kirkjueigna.58 Slíkt fyrirkomulag mundi
þó óhjákvæmilega hafa í för með sér mismunun á grundvelli trúarskoðana.
Prestastefnunefndin lauk áliti sínu svo:
...vér fáum ekki séð, að þjóðkirkjufyrirkomulag í sjálfu sér þurfi að hafa
deyfandi áhrif á kirkjulífið í landinu, sé því viturlega og frjálslega beitt og
52 HjaJti Hugason 2011 b: 161-165. Hjalti Hugason án árt.: 9-10.
53 ÞÍ. Bps. 1994-BA/l. Prestastefnan á Þingvelli 1909: 166.
54 Hjalti Hugason 201 lb: 161-165. Hjalti Hugason án árt.: 9-10.
55 Alþingistíðindi 1909(A); 1101.
56 Kirkjueignirnar 1896: 216—218.
57 Skilnaðarkjörin 1911: 274.
58 Lúterskar fríkirkjur og stjórnarskráin. Slóð sjá heimildaskrá
65