Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Qupperneq 63
L i t l a r s t ú l k u r o g ú l fa r
TMM 2008 · 4 63
hún úlf sem spyr um ferðir hennar. Hann fær hana til að njóta umhverf-
isins og gleyma sér um stund en á meðan fer hann til ömmunnar og þyk-
ist vera Rauðhetta. Hann gleypir ömmuna, dulbýr sig og bíður eftir
Rauðhettu. Rauðhetta kemur að opnum dyrum og skynjar að ekki er allt
með felldu. Hún kemur að rekkju ömmu sinnar og sér úlfinn/ömmuna
með nátthúfuna fyrir andlitinu. Rauðhetta verður tortryggin. Úlfurinn
stekkur fram úr rekkjunni, gleypir Rauðhettu, sofnar og hrýtur hátt.
Veiðimaður nokkur heyrir hroturnar, finnur úlfinn, sér hvers kyns er og
ákveður að reyna að bjarga lífi ömmunnar. Hann sker á maga úlfsins,
Rauðhetta og amma hennar stökkva út, Rauðhetta nær í steina og þau
hjálpast að við að fylla maga úlfsins. Þegar úlfurinn vaknar ætlar hann að
stökkva af stað en er svo þungur á sér að hann drepst. Veiðimaðurinn
hirðir skinn úlfsins, amman gæðir sér á góðgætinu og Rauðhetta lofar
sjálfri sér að fylgja ráðum móður sinnar.7
Kvenhetjan Rauðhetta
Í „Sögu ömmunnar“ er Rauðhetta sjálfstæð og úrræðagóð. Boðskapur
sögunnar hefur verið túlkaður sem eins konar þroskasaga stúlku sem er
að verða kynþroska. Samkvæmt franska mann- og þjóðfræðingnum
Yvonne Verdier gefur ævintýrið mynd af heimi konunnar á þeim tíma
þegar sagan gerist og endurspeglar þá virðingu sem borin var fyrir kon-
unni og hennar hlutverkum innan bændasamfélagsins. Á þeim tímum
voru stúlkur oft sendar til saumakonu í eitt ár til þess að læra réttu
handtökin áður en þær giftust og er því eðlilegt að nota títuprjóna og
saumnálar á táknrænan hátt í sögunni.8 Atriðið þar sem Rauðhetta
borðar ömmu sína og drekkur blóð hennar hefur verið álitið villi-
mannslegt en Verdier telur það misskilning að túlka það svo bókstaflega.
Það atriði sýni, ef það er skilið táknrænum skilningi, hvernig ný kynslóð
taki við af þeirri eldri, stúlkan taki við af aldraðri ömmu sinni.9 Kven-
hetjan er hvorki hrædd við náttúruna né feimin við kynferði sitt og jafn-
ingi varúlfsins.
Alþýðusagan hefur einnig verið túlkuð út frá samskiptum móður og
dóttur. Samkvæmt bandaríska mann- og þjóðfræðingnum Alan Dundes
er alltaf hægt að finna söguhetju og andhetju í ævintýrum, og eru þær
samkynja. Amman er önnur útgáfa af móðurinni, eins konar framleng-
ing á henni. Móðirin sendir hjálparvana dóttur sína í burtu frá öryggi
heimilisins. Rauðhetta hefnir sín á móður sinni með því að éta ömm-
una/móður sína og drekka blóð hennar. Ágreiningur móður og dóttur
kemur skýrt fram, segir Dundes, þegar Rauðhetta krefst þess að fá að