Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Side 5
Ve r ö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý
TMM 2015 · 2 5
fullorðna, oftast sem myndritstjóri, fékk ég ýmis kærkomin tækifæri til að
halda áfram að skrifa um barnabækur og rannsaka þær. Og ég hélt áfram að
lesa fyrir syni mína, auk þess að lesa mér til skemmtunar það helsta sem kom
út af nýjum bókum fyrir krakka. Auðvitað var það gert undir því yfirskini
að ég væri að „fylgjast með“ og „halda mér við“ en staðreyndin er sú að mér
finnast góðar barnabækur bara svo frábærlega skemmtilegar og áhugaverðar.
Ég var líka svo heppin að fá að þýða barnabækur og þegar ég var orðin þreytt
á að bíða eftir að íslenska myndabókin þróaðist á þann veg að höfundar
textans treystu myndhöfundunum fyrir hluta frásagnarinnar í stað þess að
tiltaka alltaf litinn á húfum og úlpum sögupersóna sinna hóf ég að skrifa
mínar eigin myndabækur með Halldóri Baldurssyni og Önnu C. Leplar.
Það gerðist svo um svipað leyti að strákarnir mínir hættu að nenna að
hlusta á barnasögur að ég varð upptekin af öðru. Nokkur ár liðu þar sem
helsta lesefnið voru skýrslur um allt mögulegt og ómögulegt og flestar
vökustundir voru bókaðar í annað en yndislestur. Og þá liðu í fyrsta sinn
nokkur ár þar sem ég las svo til engar barnabækur, hvorki upphátt fyrir besta
fólkið í heiminum né fyrir sjálfa mig. Og það var af og frá að ég næði að
fylgjast með af einhverju viti. Ja, fótboltabækur eftir Gunnar Helgason voru
víst vinsælar og sömuleiðis bækur um hárgreiðslur. Eina páskana svelgdi ég
í mig gjörvalla Hungurleikana og jú það var einhver Vísinda-Villi að slá í
gegn. Auk þess höfðum við öll miklar áhyggjur af læsi og PISA-könnunum.
Svo kom að því að það fór að hægjast um hjá mér. Ég náði andanum aftur
og gat farið að lesa fleira en skýrslur. Þrátt fyrir að engin væru börnin til að
lesa fyrir sótti ég aftur í barna- og unglingabækur en þó ekki með sérlega
skipulegum hætti. Ég hef einfaldlega sótt mér bækur sem mig sjálfa hefur
langað til að lesa, frekar en að ég hafi lagst í rannsóknir. Og ég er búin að
lesa nokkrar furðugóðar nýjar íslenskar skáldsögur fyrir börn, unglinga og
ungt fólk. Sú bókmenntagrein sem á ensku hefur kallast Young Adult fékk
nokkrar síður í síðustu bókatíðindum (þar af eina íslenska) og kallast þar
ungmennabækur og virðist loks vera að taka út þroska hér á landi þótt bækur
af þessum toga hafi fyrirfundist hér mun lengur. Ólíkt unglingabókunum
sem voru gríðarlega vinsælar þegar ég var unglingur eru ungmennabækur
dagsins í dag einnig vinsælar hjá fullorðnum og erlendis koma sumar þeirra
jafnvel út með tvennskonar kápu – annarri fullorðinslegri svo að þau sem
teljast nokkurn veginn vaxin úr grasi geti látið sjá sig með þær á almannafæri
án þess að blygðast sín. Unglingabækur níunda áratugarins lásu einkum
börn yngri en söguhetjurnar. Það þótti nefnilega fínt að „lesa upp fyrir sig“.
Á meðan tólf og þrettán ára börn lásu bækur Eðvarðs Ingólfssonar, Fimmtán
ára á föstu og Sextán ára í sambúð, lásu eldri unglingar Ísfólkið.
Uppgangur íslenskra ungmennabóka eru góð tíðindi, ekki síst fyrir okkur
sem höfum áhyggjur af því að börn og unglingar lesi minna en áður og
sumir, einkum drengir, geti jafnvel ekki lesið sér til gagns eins og kannanir
sýna því miður að er staðreynd. Það sérstaka við ungmennabókina er að