Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Page 10
M a r g r é t Tr y g g va d ó t t i r
10 TMM 2015 · 2
og menningunni fagnandi. Samvinna mynd- og textahöfunda á milli landa
getur einnig verið ákaflega gefandi og útkoman spennandi.
En ólíkt hinum myndhöfundunum voru þeir erlendu ekki á staðnum
að fagna opnun sýningarinnar. Útgefandinn var í öllum tilfellum sá sami
og höfundur textans stundum líka. Bókaútgáfan heitir Óðinsauga og höf-
undurinn Huginn Þór Grétarsson. Myndlistarmennirnir virtust frá flestum
heimshornum. Af þeim 34 bókum sem sýndar voru myndir úr á sýningunni
hafði Óðinsauga gefið út sjö eða ríflega fimmtung og Huginn Þór Grétarsson
skrifað fjórar þeirra. Sé aðeins litið til myndabóka er hlutfallið enn hærra en
á sýningunni voru líka sýndar myndir úr textabókum. Þrátt fyrir að mynd-
höfunda sé getið í bókum Óðinsauga virðist höfundarrétturinn í flestum
tilfellum tilheyra forlaginu eða afkastamesta textahöfundinum. Þetta vakti
forvitni mína og ég ákvað að leggjast í gúggl og örlitlar rannsóknir.
Viðskiptafræðingurinn Huginn Þór Grétarsson er samkvæmt vef Óðins-
auga útgáfu „afkastamesti rithöfundur landsins“, auk þess að starfa sem rit-
stjóri útgáfunnar (sem er sögð „leiðandi í útgáfu á barna- og unglingabókum
á Íslandi“). Samkvæmt lista yfir útgefin verk Hugins Þórs sem ég fann á
netinu4 og nær þó bara til ársins 2013 hugsa ég að það sé ekki fjarri lagi –
allavega ef við teljum afköstin í fjölda útgefinna titla. Árið 2012 gaf hann
til dæmis út 15 bækur eftir sjálfan sig! Að vísu tiltekur hann að tvær þeirra
séu þýðingar en 13 frumsamdar bækur eru dágóður slatti, hvernig sem á
það er litið. Ég fór bæði á bókasafn og í bókabúð til að skoða höfundarverk
Hugins. Í Eymundsson var bækur hans víða að finna og flestar virtust þær
ríkulega myndskreyttar myndum eftir hina ýmsu höfunda, flesta erlenda.
Teiknistíllinn er fjölbreyttur og gæðin sömuleiðis. „Á misjöfnu þrífast
börnin best,“ muldraði ég með sjálfri mér eina ferðina enn. Á Bókasafni
Kópavogs fann ég stæðilegan stafla eftir Hugin af myndabókum fyrir yngstu
börnin og myndskreyttum bókum fyrir börn sem eru farin að lesa sjálf. Ég
settist með bunkann og hóf lesturinn. Engin þeirra bóka sem ég skoðaði
státaði af íslenskum myndhöfundi og með örlitlu gúggli fann ég síðuna
www.deviantart.com þar sem Huginn Þór auglýsir eftir listamönnum til að
myndskreyta bækur sínar og forlagsins Óðinsauga fyrir smáaura.5 Hann er
tilbúinn að borga 800$ fyrir myndskreytingar og káputeikningar í 28 síðna
myndabók fyrir krakka. Hann er líka að leita að húmorískum teikningum
fyrir póstkort og býður 35$ fyrir hverja mynd sem hann getur notað en heila
60$ fyrir mynd af Lagarfljótsorminum. Og tilboðin virðast streyma inn.
Alþjóðavæðingin í hnotskurn.
Sumar af bókum Hugins Þórs eru sambærilegar við fjölda annarra bóka
fyrir lítil börn sem eiga það sameiginlegt að vera verslunarvara fremur
en bókmenntaverk. Þannig bækur hafa verið til á Íslandi í áratugi, flestar
þýddar en íslenskir höfundar hafa einnig látið ljós sitt skína með þessum
hætti. Í einhverjum kimum framleiðslunnar þykir nóg að myndirnar í
barnabókum séu litríkar. Sú bók í búðarhillunni sem er skærust ratar gjarna