Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Qupperneq 11
Ve r ö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý
TMM 2015 · 2 11
í innkaupapokann. Mun sorglegri eru þau verk sem Óðinsauga gefur út þar
sem „unnið“ er með íslenskan menningararf eins og útgáfan stærir sig af að
gera. Í verstu tilfellunum mætti hreinlega tala um misþyrmingu. Það er ekki
við myndhöfundana að sakast. Það er ekki þeim að kenna að þeir hafi engar
forsendur til að skapa sannfærandi myndheim um sögu sem á að vera íslensk.
Kertasníkir spókar sig um í útlenskum smábæ og hinir jólasveinarnir virðast
áttavilltir líka í höndum erlendu teiknaranna. Sagan Fiðrildavængir virðist
sannarlega eiga að gerast á Íslandi, í það minnsta brjóta flestar mennsku
persónurnar fánalögin með því að flíka íslenska fánanum á fötum sínum,
boltum og húfum. Og myndirnar eru snotrar og augljóst að fagmaður heldur
um blýantinn. „Hér er á ferðinni ævintýri í anda sígildra þjóðsagna þar sem
koma við sögu tröll og töfrandi verur,“ segir í kynningartexta, spurningin
er bara: þjóðsögur hvaða lands? Þrátt fyrir að teiknarinn virðist hafa kynnt
sér staðhætti nokkuð vel – á myndum má t.d. sjá borg sem líkist Reykjavík
úr fjarska og tröllin eru ekki langt frá þeirri hefð sem skapast hefur í
tröllamyndum hér á landi – fellur það allt um sjálft sig þegar drekaflugur og
önnur framandi skordýr eru allt í einu orðin hluti af söguheiminum. Þetta
gengur einfaldlega ekki upp.
Þetta finnst mér ansi sorglegt en ekki áfellist ég viðskiptafræðinginn
Hugin Þór sérstaklega. Það sem gerir mig svo dapra er að sennilega er sú leið
sem hann fer – þ.e. að skrifa flestallar bækurnar bara sjálfur og leita til landa
þar sem fólk sættir sig við enn lægri laun fyrir vinnu sína en á Íslandi til að
myndskreyta þær – sú eina sem dugir til að dæmið gangi upp fjárhagslega á
jafnlitlum markaði og Ísland er.
Myndabækur fyrir börn eru dýrar í framleiðslu. Oft eru höfundarnir líka
tveir, annar gerir texta, hinn myndir, þótt vissulega séu líka höfundar sem
gera hvort tveggja. Tveir höfundar skipta því höfundarlaununum á milli
sín. Í stað þess að fá 23% af forlagsverði bóka fær hvor um sig 11,5%. Og
bækurnar mega ekki kosta mikið þannig að það sem höfundarnir bera úr
býtum er í flestum tilfellum frekar lítilfjörlegt þótt það sé vonandi meira
en það sem Óðinsauga greiðir bæði fyrir myndirnar og höfundarréttinn af
þeim. Útgefandinn er ekki heldur í góðri stöðu. Það verður enginn feitur af
því að gefa út íslenskar myndabækur, prentaðar í lit. Það er dýrt að prenta
í lit og litlar hendur þurfa gerðarlegar kápur utan um þykkar blaðsíðurnar
og það kostar líka. Þetta virðast íslensk bókaforlög hafa uppgötvað með
þeim afleiðingum að flest einbeita þau sér að útgáfu arðvænlegri bóka, t.d.
fyrir 25–73 ára, frekar en 5–7 ára. Skiljanlega, það eru miklu fleiri á þeim
aldri. Af þeim 34 bókum sem voru á áðurnefndri sýningu eru 14 gefnar út
af Forlaginu. Forlögin Salka og Bjartur gáfu út eina bók hvort um sig sem
rataði á sýninguna. Bókabeitan sem er lítið barnabókaforlag var með tvær og
sömuleiðis Iðnú. Aðrar voru frá minni forlögum, Óðinsauga eða gefnar út
af höfundum sínum. Þetta sýnist mér hvorki vera þroskaður né heilbrigður
markaður með bækur fyrir börn.