Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Síða 16
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
16 TMM 2015 · 2
Hvar og hvenær fæddist þú og hvar ólstu upp?
Ég fæddist 30. mars 1973 á fæðingarheimilinu í Reykjavík, svo bjó ég
í Mosfellsdal og Exeter á Englandi, pabbi fór að læra í Englandi og við
bjuggum þar í tvö og hálft ár, annars bjuggum við í Mosfellsdalnum.
Hvað heitir eiginmaður þinn og sonur?
Þórarinn Leifsson, hann heitir reyndar Þórarinn Böðvar Leifsson en notar
bara Böðvarsnafnið á söguhetjur í sögunum sínum. Hann er semsagt rithöf-
undur og myndskreytir. Sonur okkar heitir Leifur Ottó, hann er fjögurra ára
og starfar við að leika sér á foreldrareknum leikskóla í Berlín.
Viltu segja mér frá heimkynnum þínum í Mosfellsdalnum?
Mosfellsdalurinn er hvort tveggja versti og besti staður í heimi – hann er
svona eins og manneskja sem maður elskar útaf lífinu en getur ekki verið
í daglegri sambúð með því það er of mikið vesen, en maður saknar alltaf
manneskjunnar. Ég held að það sé reimt í Mosfellsdalnum og álög liggi á
hólnum þar sem ég ólst upp. Það er nóg að koma inn í húsið, sem nú er gisti-
heimili, til að verða allur öfugsnúinn og skrýtinn – kannski að silfur Egils
sé grafið í hólnum sem geti því vakið upp allt það versta í mjög góðu fólki.
Viltu segja mér frá Exeter?
Exeter er, í minninu, notaleg, lítil borg þar sem mér fannst merkilegt að
sjá veðreiðahesta spígspora við háskólann hans pabba og risaköngulær á
rannsóknastofunni hans, þar stal ég líka tenniskúlum frá strákunum í næsta
húsi sem slógu þær yfir í garðinn okkar. Í húsunum í götunni bjó áhugavert
fólk eins og eldri kona sem bauð mér stundum yfir að fá kökur og te og
hitta barnabörnin sín. Á móti okkur bjó gamall maður sem átti froska og
gamaldags rugguhest sem mér fannst merkilegur. Þarna átti ég líka vinkonu
sem hét Sara, mamma hennar bjó til marglita íspinna í frystikistunni þeirra.
Vinur pabba átti líka tvær stelpur sem bjuggu í útjaðri borgarinnar í gömlu
húsi og hétu Susie-and-Kate en mér fannst þær vera eins og þau í vísunni:
Jack-and-Jill went up the hill. Pabbi þeirra var svo sparsamur að hann borðaði
stundum hundamat í kvöldmat. Mér fannst mjög gaman að fara á tehús með
mömmu, það stóð við forna kirkju og þar var þjónn sem kom með skraut-
legar kökur á kökubakka á borði á hjólum og leyfði mér að velja mér eina sem
hann setti svo með silfurtöng á diskinn minn. Stundum leyfði mamma mér
að setja pening í glymskratta og hlusta á einhver nýtískuleg lög sem henni
fundust líka skemmtileg.
Hafa foreldrar þínir haft áhrif á þig og bækurnar þínar?
Já, mjög mikil, ég er fyrst núna að hrista það af mér. Þau hafa ekki haft
áhrif á hvernig ég skrifa, en þau hafa haft áhrif á hvernig manneskja ég er