Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Side 41
H e i ð u r s l a u n l i s t a m a n n a
TMM 2015 · 2 41
huglæga mats sem þær krefjast og vegna þess að erfitt er að ganga full-
komlega úr skugga um hvort lögmálið [um seilingarfjarlægð] sé í raun virkt í
fámennissamfélagi eins og því íslenska, þar sem persónuleg kynni og pólitísk
tengsl eru aldrei langt undan.“39 Möguleiki á þessu er svo sannarlega fyrir
hendi í tilviki heiðurslauna Alþingis því að gagnsæi við ákvarðanir er lítið og
aðgengi þeirra þrýstihópa sem leggja til hugmyndir um nýja listamenn inn
á listann er æði misjafnt.
Þó að þeir alþingismenn sem fjalla um heiðurslaun listamanna láti oft í
veðri vaka að ákvarðanir um fjölgun á listanum séu gerðar í góðri sátt, þá
koma samt upp deilur um þessi mál og berast stundum út úr nefndinni.
Þegar svo ber undir má jafnvel sjá um þetta stuttar greinar í dagblöðum
enda kann blaðamönnum að þykja áhugavert að komast á snoðir um erjur
innan þingnefnda. Þegar styr stóð í nefndinni árið 1996 um hvort taka ætti
Svövu Jakobsdóttur, rithöfund og fyrrum þingmann Alþýðubandalagsins,
inn á listann var t.d. haft eftir Guðnýju Guðbjörnsdóttur, þingkonu Kvenna-
listans, að menn væru „að möndla þetta bak við tjöldin“, á meðan Hjálmar
Árnason, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, sagði að um málið yrði
„að vera samstaða, annars skyggi það á heiðurinn. Það er ekki hefð að segja
hvað er í umræðunni, það væri lítilsvirðing við listamennina,“ bætti Hjálmar
við.40 Á þessa samstöðu hefur þó oft skort.
Tilgangur heiðurslauna í menningarstefnulegu tilliti virðist nokkru sjálf-
hverfari, ef svo má segja, en til dæmis tilgangurinn með listamannalaunum.
Heiðurslaunin snúast fyrst og fremst um listamennina sjálfa og verk þeirra í
fortíð, frekar en endilega að auðvelda þeim að leggja áfram stund á list sína
og hafa þannig víðtæk áhrif á menningarlíf landsmanna. Heiðurslaun má
sjá sem þakkir fyrir vel unnin verk, hvað sem síðar verður, frekar en eiginleg
vinnulaun líkt og á við um listamannalaun.
Ekki verður því haldið fram að heiðurslaun listamanna hafi neikvæð áhrif
á íslenskt menningarlíf. Þau eru engu að síður heldur ólíklegri til að móta
listalíf landsmanna eða hafa áhrif á strauma og stefnur en listamannalaun.
Sem stýringartæki á sköpun menningarafurða hafa heiðurslaunin sáralitla
þýðingu þó að eflaust væri einhverjum sem þeirra njóta á hverjum tíma
erfiðara um vik að leggja stund á list sína, eða jafnvel draga fram lífið, ef
þeirra nyti ekki við. Þó að launin styðji vitanlega að einhverju leyti við
sköpun heiðurslistamanna er varla hægt að meta það svo að þau styðji af
þunga við aðra þætti í menningarstefnu hins opinbera sem settir hafa verið
fram, eins og áherslu á þátttöku almennings, gott aðgengi að listum og
menningararfi eða þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu.41
Heiður, styrkur eða lífeyrir?
Umræða um heiðurslaun á Alþingi gefur oft til kynna að þau séu ekki síður
hugsuð sem eftirlaun en heiðurslaun. Þannig gætir ákveðinnar spennu, í