Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Síða 58
B ö ð va r G u ð m u n d s s o n
58 TMM 2015 · 2
Þetta er auðvitað alveg út í hött enda getur
stjórnmálafólkið ekki látið vera að sækja rétt-
lætingu sinna gerða og skoðana í bókmenntirnar.
Það vitnar til höfunda í tíma og ótíma og túlkar
orð þeirra til stuðnings eigin málstað. En ef höf-
undarræfill leyfir sér að hreyfa við stjórnmála-
vafstri heims eða heimalands í verkum sínum á
þann hátt að ekki fellur í kramið hjá stjórnvöldum
þá á hann eða hún á hættu að fá einn á trýnið. Í
sumum löndum er enn vani að stinga höfundum í
svartholið ef þeir ekki kunna að halda kjafti.
Ekki þori ég að segja hvað pólitísk ljóðagerð er gömul, ég held reyndar
að Dante karlinn hafi eitthvað verið að sneiða að andstæðingum sínum í
sínum verkum, en kannski var það ekki pólitík eins og við þekkjum hana nú
á dögum hinna stóru hugmyndafræða, kapítalisma, kommúnisma, nasisma,
frjálshyggju og femínisma. Mér er nær að halda að pólitísk ljóðagerð sé ekki
ýkja gömul. Fyrir rómantík voru það helst kristnir stríðssöngvar sem skáldin
ortu. Elsti kristni stríðssöngurinn sem ég þekki er frá 1529 þegar Tyrkir sátu
um Vín og vesalings Mið-Evrópubúarnir voru að missa rassinn úr buxunum.
Þá var í Wartburg skáld sem hét Martin Luther og orti eldheitan baráttusöng
um tuddaskap Tyrkjans og nauðsyn þess að varðveita trúna á Guð og Jesú:
Ein feste Burg ist unser Gott, sem séra Helgi Hálfdánarson þýddi afar vel og
nákvæmt: Vor Guð er borg á bjargi traust. Og það var nú ekkert smáræði sem
Tyrkinn ætlaði sér, stendur þar:
Þótt djöflum fyllist veröld víð,
þeim vinnst ei oss að hrella,
því Jesús vor oss veikum lýð
er vörn og hjálparhella.
Þótt mannkynsmorðinginn
nú magni fjandskap sinn,
hann engu orka kann,
því áður dóm fékk hann.
Eitt orð má fljótt hann fella.
Hver óvin Guðs skal óþökk fá,
hvert orð vors Guðs skal standa,
því oss er sjálfur Herrann hjá
með helgri gjöf síns anda.
Þótt taki fjendur féð,
já, frelsi og líf vort með,
það happ þeim ekkert er,
en arfi höldum vér.
Þeir ríki Guðs ei granda.
Marteinn Lúther