Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Blaðsíða 83
TMM 2015 · 2 83
Eiríkur Örn Norðdahl
Vetur í Víetnam
1
Eiríkur: Ég er hræddur við að búa í sveit.
Nadja: Ég á ekki við að við búum í sveit. En ég vil ekki búa í borg. Þú veist
ekki hvernig þetta getur verið. Ég vil geta farið í göngutúr og ekki heyrt í
umferðinni.
Eiríkur: Ég veit ekkert hvað leynist í náttúrunni. Snákar, ber – það er ekki
einsog hérna. Náttúran er hættuleg og við þekkjum hana ekki.
Nadja: En það er millistig. Hvorki stórborg né sveit. Kannski getum við verið
nálægt hafinu.
Eiríkur: Þægindin kosta. Það er ódýrast að leigja við umferðaræðar. Ódýrast
að leigja fjarri hafinu.
2
Það fyrsta sem ég lærði í Víetnam var að óttast ekki dauðann. Við höfðum
varla sofið í sólarhring eftir flugið frá Stokkhólmi og skakklöppuðumst
rangeyg út af hótelinu í matarleit, ég leiddi Aram Nóa og Nadja var með Aino
Magneu ólaða á bakið, við þrömmuðum í gegnum stjórnlaust öldurót mótor-
hjóla, reiðhjóla, götusala, leigubíla, ruslabíla og rúta. Gengum í vegkantinum
eða bara úti í vespugerinu því í Víetnam eru gangstéttirnar fyrir ávaxtasala,
farartæki og veitingastaði, bara í Hanoi deyja um 30 manns í umferðinni á
dag. En maður þarf að borða. Börnin manns þurfa að borða. Og þetta gerir
fólk – þetta er eðlilegt og flestir koma lifandi heim til sín. Maður tekur skref
eftir skref, heldur stöðugu tempói, breytir ekki um stefnu nema með góðum
fyrirvara, bakkar ekki, herðir ekki snögglega á sér og treystir því að enginn
keyri bókstaflega á mann þótt þeir komi skuggalega nálægt. Það er ekkert
jafn víst með að drepa mann í þessari umferð og það að óttast dauðann. Sá
sem hikar tapar. Sá sem hikar deyr. Sem betur fer erum við of þreytt til að
vera hrædd.