Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Qupperneq 86
E i r í k u r Ö r n N o r ð d a h l
86 TMM 2015 · 2
8
Það er mynd af Ho Chi Minh á peningunum; mynd af Ho Chi Minh á öllu
öðru. Þegar ég sting kortinu mínu í hraðbankann verður skjárinn fyrst eld-
rauður, svo birtist hamar og sigð, og loks lógó bankans og síðan fæ ég að taka
út pening. Í skjóli flokksins. Það tekur því ekki að fara í hraðbankann fyrir
minna en þrjár milljónir, sem eru fleiri einingar en ég fæ skilið. Í Víetnam
er minnsti seðillinn sem ég sé 500 dong – rétt rúmar þrjár krónur. Ég heyri
sögur af 200 donga seðli en ég sé hann aldrei. Það er ekki til nein mynt. En
allt er til sölu og það eru engin föst verð, ekki heldur þar sem stendur að
það séu föst verð, ekki heldur þar sem eru verðmiðar. Allir eru kapítalistar.
Skólagjöld í grunnskóla eru mjög lág en skóladagurinn er líka stuttur, allir
fara í dýra einkakennslu fram á kvöld – leikskólakennarar lifa á mútum frá
foreldrum, sem þeir fá gegn því að sýna börnum þeirra auka athygli.
9
Það er ekki alveg satt að það séu engar bókabúðir í Hoi An – en bækurnar
sem eru til sölu eru annaðhvort á erlendum málum fyrir túrista eða
kennslubækur. Í stærstu bókabúðinni, sem kæmist fyrir inni á Mokka kaffi
í Reykjavík, finn ég tvær bækur á íslensku: Napóleonsskjölin eftir Arnald
Indriðason og Sér grefur gröf eftir Yrsu Sigurðardóttur. Eina bók eftir
kónginn og eina eftir drottninguna. Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness
er til en bara á ensku. Hér er einvörðungu sýslað með notaðar bækur, mest
á ensku en líka á þýsku, frönsku og norðurlandamálunum. Í einni eða
tveimur túristabúðum niðri í bæ má finna nýjar bækur, ólesnar, ósnertar
– þessa einu víetnömsku skáldsögu sem þeir hafa áhuga á að selja manni,
The Sorrow of War eftir Bao Ninh, sem er þeirra Platoon, merkilega svipuð;
tilgangs- og viðstöðulaus slátrun á fólki í nafni málstaðar sem maður skilur
ekki í bland við eiturlyfjanotkun og rugl sem fylgir barnungum hermönnum
– smásagnasafnið The General Retires eftir Nguyen Huy Thiep, klassískar
19. aldar bókmenntir frá Evrópu og Ameríku, 3–4 samtímahöfunda sem
eru vinsælir meðal enskumælandi andfætlinga, Elskhugann eftir Marguerite
Duras (sem var eins konar Víetnami), matreiðslubækur og ljósmyndabækur.
Já og frekar óspennandi ljóðabók eftir einhvern túrista, með teikningum af
gamla bænum. Frægasti höfundur þeirra, Duong Thu Huong, var eitt sinn
sjálfboðaliði í „stríðinu gegn Bandaríkjamönnum“, hafðist við í göngum og
frumskógum í sjö ár og varð síðar einn af vinsælustu höfundum landsins en
hún hefur lítið fengist útgefin innanlands síðustu tvo áratugina eftir að hafa
tekið að gagnrýna yfirvöld í bókum sínum – í kjölfar þess að flokkurinn
hvatti höfunda til þess, í perestroikískum anda seint á níunda áratugnum,
en dró svo til baka þegar járntjaldið í Evrópu hrundi. Hún var fyrst rekin
úr flokknum, svo ofsótt af stjórnvöldum, fangelsuð um skamma hríð fyrir