Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Page 88
E i r í k u r Ö r n N o r ð d a h l
88 TMM 2015 · 2
ég veit, það sem ég hef lesið svo oft. Þetta gerði Agent Orange. Þetta er hann
enn að gera.
12
Í sósíalismanum eru það ekki bara sjóræningjasíðurnar sem ógna allsherjar-
reglu heldur líka samfélagsmiðlarnir (í kapítalismanum höfum við meiri
áhyggjur af upplausn fjármagns en upplausn félagsvitundar, í markaðs-
sósíalismanum þarf að hafa kontról á hvorutveggja). Facebook er auð-
vitað bannað, en það er jafnvel einfaldara að fara framhjá því banni en
afritunarvörnum íslenskra rafbóka – ég hef varla séð neinn opna fartölvu
eða taka upp síma í þessu landi án þess að þar sé Facebook opið. Twitter og
Google Plus eru líka bönnuð á sama hátt. Raunar viðurkennir ríkisstjórnin
alls ekki að hún hafi bannað félagsmiðla, ekki frekar en Pressan og miðlar
hennar gangast við að hanga í sama ættartré og Framsóknarflokkurinn.
Ríkisstjórnin kennir einhverjum öðrum um, ég man ekki alveg hverjum,
útlendingum, árásum á netstrengi, ekki einu sinni heitustu kommúnistar
leggja á það neinn trúnað og nákvæmlega hverjar lygarnar eru skiptir ekki
máli nema maður vilji hafa þær eftir. Eitt og annað fleira er svo bannað – alls
konar spjallforrit, heimasíður mannréttindasamtaka og auðvitað heims-
valdasinnarnir á BBC. Mér skilst að ástandið sé svo verst þegar kemur að
miðlum á víetnömsku – miðlar á ensku geta gagnrýnt yfirvöld upp að vissu
marki án þess að lenda í veseni en miðlar á víetnömsku mega að sögn ekki
halla á hana máli að nokkru leyti án þess að vera lokað tafarlaust. Það ku
síðan ekki meðmæli með innlendum rithöfundum að þeir fáist útgefnir í
landinu.
13
Í febrúar birtist frétt þess efnis í enskumælandi dagblaði, Vietnam News,
að þrír einstaklingar hafi verið dæmdir af Alþýðuréttinum fyrir „sedition“
– að „kynda undir óánægju eða æsa til uppreisnar gegn ríkinu“, einsog það
er þýtt á snöru.is. Í fréttinni kemur fram að viðkomandi einstaklingar hafi
birt lygar og misvísandi upplýsingar um land, þjóð og flokk á Facebook og
á heimasíðum Hoi Yeu Nuoc (Félags föðurlandsvina) og Hoi Anh Em Dan
Chu (Lýðræðisbræðralagsins), þar sem þeir hafi í ofanálag birt myndband
frá mótmælum í Amata og handtöku mótmælenda. Það kemur ekki fram
hvað þeir hafi sagt eða hverju hafi verið mótmælt, en brotin áttu sér stað á
tveggja ára tímabili. Í fréttinni stendur að þeir hafi verið sakaðir um að mis-
nota lýðræðisréttindi sín, málfrelsi, fundafrelsi, áfrýjunarfrelsi og réttinn til
að nota internetið.
Ég les fréttina alltaf annað veifið, kannski einu sinni í viku, til að reyna
að átta mig betur á henni. Vietnam News er í eigu Vietnam New Agency