Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Qupperneq 102
102 TMM 2015 · 2
John Freeman
Viðtal við Tomas Tranströmer
Magnús Sigurðsson þýddi
Eyjan Runmarö liggur í um klukkustundar fjarlægð frá Stokkhólmi, umkringd
skerjum sem rísa upp úr haffletinum. Til að komast þangað þarf að taka ferju
sem þræðir sér leið um skerjagarðinn á 20 hnúta hraða á klukkustund.
Það er rigningarsíðdegi í ágúst, hafið grænleitt og dulúðugt – og ekki
erfitt á degi sem þessum að skilja hvers vegna sæfarendur byggðu hús sín
á Runmarö fremur en á einhverjum af hinum 27.000 eyjunum í sænska
skerjagarðinum.
Þegar eyjan rís úr hafi, klettótt, vaxin rauðgreni og eikartrjám, er hún að
sjá sem unaðsreitur hins heimakæra manns.
Á ofanverðri 19. öld var móðurafi Nóbelskáldsins Tomas Tranströmers
slíkur maður. Sem skipstjóri leitaði hann að föstu landi undir fótum, og lenti
skipi sínu hér. Litla, bláa timburhúsið sem hann reisti á Runmarö stendur
enn, og þar verja Tranströmer og Monica, eiginkona hans til ríflega 50 ára,
sumrum sínum.
Eins og sönnum afkomanda skipstjóra sæmir, þá tekur Tranströmer með
viðhöfn á móti gestum sem stíga af skipsfjöl, þótt heilablóðfallið sem lamaði
hann fyrir 25 árum geri honum móttökuna erfiða.
Þegar mig ber að garði, bíður hann mín í hjólastól við endann á löngum og
mjóum malarstíg, með teppi vafið um axlirnar. Monica stendur fyrir aftan
hann.
Útvarp frá 6. áratug síðustu aldar hvílir í kjöltu hans, og úr því hljóma
tónar úr 2. sinfóníu Rachmaninoffs í E-dúr svo undir tekur í skóginum.
Um leið og Monica ýtir eiginmanni sínum varlega í átt að húsinu, upp
skábrautina og inn í forstofuna, má hvarvetna heyra táknin úr hinni mikil-
fenglegu ljóðlist Tranströmers hvísla allt í kringum okkur. Jarðvegurinn
umhverfis húsið er vaxinn mosa og þéttum rótargróðri. Vindurinn muldrar
í laufi trjánna. Í loftinu er keimur af seltu og viðarkvoðu. Ugglaust hnitar
haukur eða músafálki hringa fyrir ofan okkur og virðir okkur fyrir sér úr
háloftunum.
Tranströmer byrjar strax á því að benda hljóðlega hingað og þangað, eins
og hann vilji segja hérna, þetta er það sem ég átti við.
Á þeim tveimur klukkustundum sem í hönd fara verður mér ljóst að þessi
eyja hefur látið honum í té nóturnar sem gerðu honum kleift að skapa þá