Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Page 118
Tr y g v i D a n i e l s e n
118 TMM 2015 · 2
stærri. Skuldin við leigusalann vex. Hún er búin að selja stofuklukkuna
og aðra muni en hún megnar ekki að standa úti á götu og selja listaverkin.
(Þematónlist)
Ég er svöng. Mamma er almennt séð eini fæðugjafinn minn og hún er ekki
beinlínis vellandi allsnægtabrunnur. En ég skil hana vel því að
ég sakna pabba eins og hún
ég elska hana,
hún er mamma mín.
Móðurlífið er undursamlegur staður. Hér er þröngt, en ekki of þröngt. Ég
reyni að bylta mér ekki því að ég vil ekki ganga of nærri mömmu. Ég kanna
aðstæðurnar, hvernig hver þráður er vafinn og festur. Ég er gáttuð á öllum
taugunum og vefjunum sem vinna saman að lokatakmarkinu, að næra mig.
Ég verð auðmýktin ein þegar það rennur upp fyrir mér að allt er þetta búið til
bara fyrir mig. Það er stórfenglegt að öll þessi lífsorka og öll þessi fjölskipaða
heild skuli berjast fyrir því að aumingja litlu mér verði unnað lífs.
*
Í fyrstu var víman óþolandi. Hún gerði mig veika. Mér fannst ég lasin og
skemmd, eins og nálin væri vampíra sem sygi úr mér lífið. Smám saman
vandist ég
henni
uns hún
að endingu
varð ómissandi.
Nú þarfnast ég hennar.
Ég hef unun af því að fylgjast með undirbúningnum. Ég nýt þess að finna
ilminn sem leggur af þegar hún tendrar logann undir súpuskeiðinni. Að sjá
vökvann sem hún dælir úr sprautunni til þess að vera viss um að loftbólur
þvælist ekki fyrir. Að finna hvernig hægir á blóðrennslinu þegar hún spennir
æðarnar. Þá veit ég að víman er að koma. Þá bíð ég bara eftir því að hún
mundi sprautuna, beri hana gætilega upp að æðinni og …
* Ah *
Þörfinni er fullnægt.
Sigurreif teygi ég úr mér og gæli varlega við vefnaðinn sem umlykur mig
til merkis um samþykki mitt og þakklæti. Nú liggjum við þarna í skítuga
einsemdarhreiðrinu, mæðgurnar vímuðu, ég og Líf.
*