Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Page 4
4 TMM 2015 · 4
Kristín Ómarsdóttir
Sjötíu þúsund hugsanir
Viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur
Rababarar skreyttu fyrstu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur Upphækkuð
jörð (1998). Sagan fjallar um stúlku sem býr á eyju undir stóru fjalli, hún
gengur með hækjur og stefnir á tindinn. Hér koma fram mótuð höfundar
einkenni sem fylgja verkum hennar síðan. Auður Ava teiknar upp myndir
með pennanum af lipurð, hún er dálítið bíómyndaleg og býr til skemmtilegar
persónur og óvæntar líkingar. Ég hitti hana fyrst í búð úti á horni. Hún kom
á óvart, ekki vegna sólgleraugnanna sem hún bar en ég veit hreinlega ekki
hvers vegna. Seinna hef ég hitt hana í sömu götu, klædda blárri kápu sem
minnir á yfirhöfn hermanns – í Napóleonslitunum – blá yfirhöfn, rautt hár,
hið hvíta felur hún innanbrjósts: kannski dúfu? Það er líkt og njósnari hoppi
inn í leikmyndina af felustað, þegar hún birtist úti á götu, af þörf til að hlæja
og gantast.
Í næstu skáldsögum breytast leikmyndirnar en oftast er kálgarð að
finna þó einnig sé farið um víðan völl. Rigning í nóvember kom út 2004 og
fjallar um ferðalag fráskilinnar konu með fatlað barn milli landshluta, því
næst birtist Afleggjarinn (2008), þar fer ungur reykvískur karlmaður með
afleggjara af rós í klaustur á meginlandinu og ílengist þar við garðrækt.
Undantekningin – de arte poetica (2012) fjallar um unga konu – ég ímynda
mér hún búi í íbúð vestur í bæ – sem eiginmaður yfirgefur fyrir karlmann
og um nágranna hennar og dverg. Á nýliðnum árum hefur Auður Ava auk
þess unnið í leikhúsi og eftirfarandi leikrit eftir hana hafa verið frumsýnd:
Svartur hundur prestsins (2012), Svanir skilja ekki (2014) og Ekki hætta að
anda (2015). Lán til góðverka (2013) var frumflutt í Útvarpsleikhúsinu.
Ljóðabókin Sálmurinn um glimmer kom út árið 2010.
Skáldsögur Auðar Övu hafa verið þýddar á mörg tungumál og koma
út beggja megin Atlantshafs. Þær hafa hlotið tilnefningar, verðlaun og
viðurkenningar, lofsamlega dóma og þakkláta og eftirvæntingarfulla les
endur.
***
Mig langar til að byrja á að þakka þér fyrir að koma í viðtal við mig fyrir
Tímarit Máls og menningar. Auður Ava, viltu segja mér hvar þú ert fædd,