Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Síða 23
S í s í f r í k a r ú t
TMM 2015 · 4 23
sýni að læsi blómstri þar sem nemendur hafa aðgang að bókum sem þá
langar að lesa, leyfi til að velja sjálfir og fái tíma til að sökkva sér ofan í þær.
Bandarískir skólar hafa unnið eftir „No child left behind“ stefnu Georg W.
Bush frá árinu 2002, sem einkennist af stöðugum prófum rétt eins og stefnt
er að hér.29 Stefnan hefur verið umdeild og átalin fyrir að draga úr skapandi
vinnu og gagnrýninni hugsun. Skólakerfið framleiðir próftakendur í stað
þess að skapa lesendur og það drepur niður ástríðu barnanna fyrir lestri, eins
og Gallagher orðar það.30
Hafa íslensk skólabörn gott aðgengi að barnabókum?
Því miður vantar mikið upp á að barnabækur eigi jafngreiða leið inn í grunn
skóla á Íslandi og lýst er hér að ofan. Skólasöfnin urðu fyrir harkalegum
niðurskurði við hrun, eins og rannsókn greinarhöfundar leiddi í ljós 2011.31
Framlög til bókakaupa lækkuðu að meðaltali um 50%, sums staðar fóru þau
niður í ekki neitt, núll krónur árið 2009, en mjökuðust svo lítillega upp á
við næstu tvö árin. Í meðalskóla með um 400–450 nemendur var algengt
að safnið hefði í kringum 700–750.000 krónur til bókakaupa 2007 en um
350.000 krónur 2011. Á sama tíma hækkuðu barnabækur um 28% svo að
raunverulegur samdráttur í bókakaupafé var miklu meiri en fjárframlög
segja til um. Varlega áætlað gat dæmigert safn keypt 125–130 færri bækur
á ári. Yndislesturinn mætti afgangi og erfiðara varð fyrir börn að finna
lesefni við hæfi. Langir biðlistar mynduðust eftir vinsælum bókum sem ekki
var hægt að kaupa mörg eintök af. Fræðsluefni eða fagefni fyrir kennara
var ekki keypt. Verst úti urðu þó unglingarnir því þeir lásu minnst fyrir
og lágu best við höggi. Unglingabókakaup drógust mest saman. Auk þess
var tímaritaáskriftum að mestu hætt sem kom helst niður á unglingunum.
En það var fleira en bókakaupaféð sem dróst saman, víða var opnunartími
styttur og þjónusta minnkuð. Nemendur höfðu færri tækifæri til að sækja
safnið.
Nú er aftur komið góðæri, segja menn. En skyldi það ná til skólasafnanna?
Ég hef kannað stöðuna hjá sömu söfnum og 2011 og fyrstu niðurstöður
sýna að þau eru enn fjársvelt. „Það er orðinn mikill uppsafnaður vandi
hjá mér,“ sagði einn skólasafnskennarinn. Þessi starfsmaður fær 500.000
krónur til bókakaupa í ár en telur sig þurfa milljón. „Það vantar mikið af
nýlegum skáldritum fyrir börn og unglinga,“ segir hann. „Það vantar fleiri
orðabækur, fræðibækur fyrir börn og alls kyns handbækur og fræðirit fyrir
kennara.“ Annað safn hefur fengið hækkun upp á 7,5% eða 25.000 krónur
síðan 2011 og fær nú 355.000. Ef reiknað er með vísitölubreytingum ætti
framlagið að vera um milljón til að samsvara framlaginu fyrir hrun. Bæði
þessi söfn eru í skólum með 400–450 nemendur.
Barnabækur hafa hækkað enn meira í verði frá 2011 og munar þar auð
vitað mest um hækkun virðisaukaskattsins. Ef við lítum í Bókatíðindi má sjá