Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Blaðsíða 41
Þ e t t a á a ð v e r a F Ó T B O LT A B Ó K !
TMM 2015 · 4 41
Pabbi sagði að þetta hefði verið algjör súperpakka díll. Fyrst seldum við fólki lakkr
ísinn svo fólkið fékk niðurgang og neyddist til að kaupa klósettpappírinn líka. Hann
ætti að vita það. Hann er með algjört æði fyrir lakkrís og át tvo pakka sjálfur á einu
kvöldi. Hann segist ennþá vera með rispur á rassinum eftir klósettpappírinn sem
ég var að selja, Hann kaupir bara EXTRASÚPERMEGAMJÚKAN pappír núna.
Og talandi um að skíta á sig […](VíV,9)
Barnsleg sögumannsröddin gerir að verkum að brandarar af þessu tagi, sem
kannski virkuðu illa með annarri frásagnaraðferð sleppa og rúmlega það. En
Jón er (sem betur fer) ekki alltaf í kúk og piss húmornum. Hann hefur líka
bókmenntalegan metnað, hann veltir fyrir sér orðunum sem hann notar. Í
fyrstu bókinni er hann stundum óöruggur með orðin og við sjáum að hann
er að reyna að nota orð sem hann ræður ekki alveg við: „Þannig brýst tap
sárið út … tapsærið … tapsárnin út, segir mamma“ (VV,10). Hann getur líka
klappað sjálfum sér á bakið þegar tungumálið hlýðir honum og skrifin ganga
vel, til dæmis þegar beygja þarf erfið orð eða nöfn: „Við hlupum til Arnar
(það er sko Örn! Hér er Örn – um Örn – frá Erni – til Arnar!) (VíV, 42).
Eftir því sem líður á bókaflokkinn sjáum við líka að Jóni vex ásmegin,
ekki bara sem fótboltamanni heldur líka sem sögumanni. Metnaður hans
vex og í síðustu bókunum er hann kominn í nokkurs konar bókmenntalegar
mútur. Hann reynir að beita tungumálinu á skapandi hátt sem stundum
verður til þess að hann teygir sig of langt og röddin verður skræk: „Þegar við
komum aftur á staðinn okkar í stúkunni var köttur kominn í ból bjarnar.
Eða kannski: Læður komnar í sæti fressa? (Nei, þetta var glatað.)“21
Jón leyfir sér líka ýmsa dirfsku í frásagnaraðferðinni í síðustu bókinni.
Eins og hver annar módernisti veltir hann t.d. fyrir sér eigin stöðu sem sögu
manns: „Nú hefði komið sér vel að vera alvitur sögumaður og vita hvað allir í
sögunni voru að hugsa og segja.“ (GíG, 270) Í Aukaspyrnu á Akureyri verður
frásögnin líka margradda þar sem Jón lætur öðrum persónum, Eivöru og
Ívari, eftir frásögnina í stuttum köflum.
Málfarspælingar Jóns og vangaveltur um stíl og frásagnaraðferð minna
líka á annað. Hann er barn og seinna unglingur og veit að lesendur hans eru
það líka. Þess vegna getur hann ekki leyft sér hvað sem er: „Foreldrar Vals
manna og þjálfari fóru að hrópa og öskra á dómarann og kalla hann öllum
illum nöfnum sem mörg voru svo slæm að ég þori ekki að setja þau hérna því
þetta er barnabók.“ (VíV, 145).
Jón er ótrúlega vel smíðaður sem sögumaður í barnabók. Maður verður
varla var við að fullorðinn söguhöfundur kíki yfir öxlina á honum eins og
oft vill verða í barnabókum með fyrstupersónu sögumann. Þetta gerir hann
einstaklega viðkunnanlegan og aðlaðandi sögumann, en hitt er þó kannski
mikilvægara að þetta gerir ungum lesendum auðvelt að treysta honum og
láta hann leiða sig í gegnum erfiðar aðstæður og sára reynslu.