Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Qupperneq 58
A n d r é s E i r í k s s o n
58 TMM 2015 · 4
Fiddler of Dooney (The Wind among the Reeds) segir frá lífsglöðum fiðlara
sem hleypt verður í himnaríki á undan bræðrum sínum tveimur sem báðir
eru strangtrúaðir klerkar, því á himnum eru tónlist og dans í meiri metum
en guðsorð. The Ballad of Father O’Hart (Crossways) segir frá presti sem elsk
aður var af dýrum sem mönnum, svo að allir fuglar Sligo komu í jarðarför
hans og grétu sáran. Ljóðið A Legend byggir á þeirri þjóðtrú að hinn upp
runalegi Sligobær sé á botni Lough Gill. Í ljóði Yeats hverfur bærinn í tár
dropa Guðs, sem hann felldi vegna heimsku og hroka íbúanna.57 The Hosting
of the Sidhe (The Wind among the Reeds) lýsir álfareið frá Knocknarea og The
Stolen Child (Crossways) lýsir því hvernig álfarnir hylla ungan dreng til sín úr
mannheimum. (Það ljóð fylgir hér þýtt á íslensku með nánari skýringum.)
Það eru sterk tengsl og stundum skörun milli þessara ljóða og The Celtic
Twilight. Í þeirri bók er saga um unga nýgifta konu sem numin var brott af
álfunum í Hjartavatni. Yeats sagðist hafa heyrt söguna „úr munni lítillar
gamallar konu með hvíta húfu, sem syngur fyrir sjálfa sig á gelísku og tiplar
um eins og hún sé að rifja upp dansspor úr æsku sinni.“ Hann bætti við:
„Eitthvert óþekkt írskt skáld samdi um þetta ballöðu sem nú er að mestu
gleymd, en gamla konan með hvítu húfuna man nokkur vers og hefur sungið
þau fyrir mig.“58 Yeats sagðist hafa notað söguna og versin til að semja sína
eigin ballöðu um sama efni.59 Þetta er ljóðið The Host of the Air (The Wind
among the Reeds).
Í þessum fyrstu ljóðabókum Yeats birtist Sligo þannig sem vettvangur
álfa, alþýðufólks og atburða sem þeim tengjast. Leiti hins vegar einhver að
lofgjörð um sveitina, sólina og vorið að hætti íslenskra rómantískra skálda
verður sá hinn sami fyrir vonbrigðum. Hér finnst ekkert sem samsvarar
„Hlíðin mín fríða“, „Vorið er komið“, „Blessuð sértu sveitin mín“ og „Fyrr
var oft í koti kátt“. Þó ber þess að geta að Yeats orti nokkur slík kvæði á fyrstu
árum síns skáldferils, flest á táningsaldri, en birti aðeins tvö þeirra, þar af
eitt sérstaklega ort fyrir barnablað. Hann leit á þau sem bernskubrek og valdi
ekkert þeirra í sín ljóðasöfn. Kannski örlar á sveitarómantík í The Lake Isle
of Innisfree, sem þó fjallar frekar um tilvistarlega vansæld í stórborginni og
þrá eftir einveru. Lýsing á fegurð sveitarinnar er bundin við tvær ljóðlínur:
„There midnight’s all a glimmer, and noon a purple glow, / And evening
full of the linnet’s wing.“ Yeats fékk fljótt mestu óbeit á skáldskap náttúru
dýrkunar og sveitarómantíkur, líkt og öllum skáldskap með predikun,
siðaboðskap og þjóðfélagslegum lausnum. Slíkt fannst honum óheilindi,
markvisst daður við lesandann, beiðni um velþóknun. Af þeim sökum varð
Yeats fljótlega afhuga William Wordsworth, sem hann sagði einn „þeirra
óráðvöndu listamanna … sem blönduðu alþýðlegum siðaboðskap saman við
verk sín.“60 „Þetta eykur vinsældir hans meðal betri tegundar blaðamanna og
pólitíkusa sem hafa skrifað bækur.“61 Sjálfsagt væri að menn mærðu sveitina
sína í ræðu og riti, en slíkt væri bara ekki ljóðlist, alltént ekki góð. Yeats var
líka virkur írskur þjóðernissinni, en orti aldrei ættjarðarljóð og baráttu