Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Page 68
68 TMM 2015 · 4
Gerður Kristný
Kross
Nýi enskukennarinn var stuttklippt kona í heimaprjónaðri peysu. Hún
rigsaði sjálfsörugg inn í skólastofuna, heilsaði okkur hraðmælt og kynnti
sig sem „Selmu enskukennara“. Því næst dreifði hún verkefni um stofuna
og sagði að þar sem við værum að sigla inn í unglingsárin hlyti okkur að
vera treystandi til að vinna saman í hópum án þess að allt færi í kjaftagang.
Eyrnalokkar dingluðu í eyrunum á henni og armbönd hringluðu þegar hún
rétti okkur blöðin. Röddin var svo ákveðin að bekkjarsystkini mín tóku hana
á orðinu og drógu sig saman í hópa án teljandi skarkala.
„Hlustarðu á Pink Floyd?“ spurði Selma hvöss. Það tók mig fáeinar sek
úndur að átta mig á að hún væri að tala við mig. Bekkurinn fylgdist með.
„Æ, ég bara fann þetta,“ sagði ég heit í kinnunum og greip ósjálfrátt um
merkið sem ég bar í hjartastað. Ég hafði fundið það í búningsklefanum í
sundi og hirt það. Samt hafði ég aldrei heyrt neitt lag með Pink þessum. Ég
var reyndar með tvö barmmerki. Á hinu stóð „I hate school“. Eins og mér
fannst nú oft gaman í skólanum. Gott að Selma spurði mig ekkert um það.
Eyrnalokkarnir hennar reyndust vera písmerki. Það ríkti líka óvenjumikill
friður í skólastofunni. Kannski er meiri friður þar sem einráður fer með allt
vald.
„Ætlar þú ekki að vinna með neinum?“ spurði Selma. Ég skimaði stressuð
í kringum mig. Hildur, besta vinkona mín, grúfði sig yfir verkefnið sitt og
var þegar komin niður hálfa síðuna. Ekki vildi ég trufla hana.
„Hún má vinna með okkur,“ sagði Steina þar sem hún sat aftast í stofunni
við hliðina á bestuvinkonu sinni, Olgu. Þær höfðu bimbirimbirimbað sig
saman í gegnum lífið síðan ég kom glæný í sjö ára bekkinn. Það var alltaf
borin ómæld virðing fyrir bestuvinkonum og þeir sem unnu verkefni með
þeim eða hoppuðu með í parís vissu að þeir voru aðeins velkomnir um
stundarsakir.
Ég hafði aldrei áður sest hjá þeim, enda hafði ég aldrei þurft þess. Þegar ég
byrjaði í bekknum hafði kennarinn ákveðið að við Hildur yrðum vinkonur
og síðan höfðum við setið nálægt hvor annarri og verið samferða úr og í
skóla. Samt vorum við svo ólíkar. Hildur horfði aldrei á sjónvarp svo ég gat
aldrei talað við hana um Dallas. Hún gat heldur ekki talað um sveitina sína