Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Side 74
74 TMM 2015 · 4
Ástráður Eysteinsson
Tungan svarta
Að nema nöfn rósarinnar
Án auga sem les hana, geymir bókin aðeins tákn
sem ekki ala af sér hugtök, og því er hún þögul.
Vilhjálmur af Baskerville
Svört er ég, og þó yndisleg […]
Ljóðaljóðin
Fram að þessu hafði ég haldið að hver bók talaði um hluti, mannlega eða guð
dómlega, sem standa utan við bækurnar. Nú varð mér ljóst að ósjaldan tala bækur
um bækur, eða fremur væri því líkast að þær ræddust við. Í ljósi þessara hugleiðinga
virtist mér bókasafnið enn viðsjálla. Það var þá vettvangur langdregins og verald
legs hvískurs, umræðu sem varla heyrist frá bókfelli til bókfells, lifandi hlutur,
safnker máttar sem mannlegur hugur gat ekki hamið, fjársjóður leyndarmála sem
komin voru úr ótal hugum, og höfðu lifað af dauða þeirra sem höfðu fætt þau af sér,
eða fleytt þeim áfram.
Svo mælir munksveinninn og sögumaðurinn Adso í skáldsögu ítalska rit
höfundarins og fræðimannsins Umberto Eco, Il nome della rosa, sem út
kom 1980, eða Nafni rósarinnar eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Thors
Vilhjálmssonar sem birtist 1984 og hér er vitnað til.1
Bókasafnið sem fjársjóður leyndarmála – þetta safn er að einhverju leyti
til í huga sérhvers manns; öll göngum við um með lifandi en óreiðukennt
safn brota – minninga, mynda, tilfinninga, texta, bóka – sem tala saman í
kolli okkar. Bókafólk er stundum spurt um eftirlætisbækur sínar. Svörin eru
líklega oft býsna ritstýrt úrval, stundum samkvæmt hugmyndum svarandans
um eigin frumleika (hann reynir þá að finna til eitthvað utan alfaraleiðar),
eða þau fela í sér staðfestingu á kanón, hefðarveldi, sem er óhjákvæmilega
aðfengið og maður á með öðrum. Hugsanlega er auðveldara að gefa einlægt
svar sé spurt hvaða verk hafi markað dýpst spor í lestrar reynsluna, eins og
minnið heldur henni til haga; semsé hvaða verk hafi verið afdrifaríkust á
hverjum tíma. En bókasafnið í huga okkar má líka skoða sem einskonar
bókmenntasögu, og þegar farið er að hugsa þannig um „safnkerið“, vaknar
spurning um það hvaða bækur geti talist mælistikur á þá bókmenntasögu
sem maður „lifir“, vörður á lestrarævi manns, eins misglöggur og sá vitnis
burður getur þó vissulega verið um bókmenntalífið á hinum ýmsu skeiðum.