Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Blaðsíða 97
B ó k a k a s s i n n
TMM 2015 · 4 97
***
Ég hrökk upp í fáránlegri stellingu. Útlimirnir flæktir saman í hálfgerða
slaufu. Hálsrígur. Höfuðverkur.
Hvar var ég aftur?
Æ já: Biskops Arnö, Svíþjóð.
Klukkan ekki nema sirka þrjú að nóttu. Ég bylti mér í rúma klukkustund,
árangurslaust, vissi vel að nú gæti ég ekki sofið meira, samt var ég ennþá
dauðþreyttur.
Úti var þetta dularfulla, bjarta, norræna sumarrökkur sem ég hafði
saknað en hélt nú fyrir mér vöku, virkaði framandi og skrítið.
Enn varð mér litið undir skrifborðið: Var ég að verða geðveikur eða
bárust úr bókakassanum þung slög, hljóð sem minntu á hjartslátt eins og í
The TellTale Heart eftir Edgar Allan Poe (þegar hjarta hins myrta slær enn
inni í veggnum); höfðu þessi hljóð vakið mig? Gátu kannski allir heyrt þessi
slög í bókunum mínum? Myndu hinir gestirnir á eyjunni kannski bráðlega
byrja að banka á dyrnar hjá mér og æpa: Skrúfaðu niður í þessum hávaða!
Við getum ekki sofið!
Loks gafst ég upp, klæddi mig og flúði út í hressandi sumarloftið. Mölin
brakaði undir strigaskónum. Ég velti því fyrir mér hvort nokkrir aðrir væru
einnig andvaka, gægðust jafnvel pukurslega út til mín þar sem ég fetaði mig
milli fallegra, gamalla húsa, ýmist rauðra eða rjómagulra með dökkmál
uðum þökum.
Kannski sátu hinir ungu höfundarnir einnig andvaka í herbergjunum
sínum og hömuðust við að slá inn tilfinningarík ljóð á fartölvurnar sínar?
Ég fylgdi bílveginum sem tengdi eyjuna við meginlandið og steig þar út á
litla, dúandi viðarbryggju. Við bryggjustólpann lá bundinn hvítur árabátur
og í botninum var svolítið af vatni og ljósgrænu slýi. Ég horfði lengi út yfir
örþunnt mistrið sem sveif yfir vatninu. Á ljósbláum himninum ljómaði
hálft tungl og í austri fikraði sólin sig hægt en örugglega upp yfir dökk
græn eikartré. Ég fylgdist glaður með þessari friðsælu andstæðu New York
borgar, skyndilega orðinn eitthvað svo vær og afslappaður. Alltaf þegar ég
sé eitthvað fallegt langar mig að Karlotta sjái það líka og nú langaði mig að
hún sæi skóginn sem var hinum megin við vatnið, öll þessi fagurgrænu tré
sem drukku þolinmóð úr ljósblárri víðáttu himinsins. Mig langaði að hún
sæi sólina sem var að koma upp í vestri, hægt og rólega. Mig langaði að
skrifa með jafn rembingslausum hætti og sólin gerir þegar hún kemur upp á
himininn. Mig langaði að skrifa sögur á jafn áreynslulausan hátt og mjúku
geislarnir hennar lýstu á skóginn. Sólin fetaði sig niður trén eins og málari
sem smáfyllir út í strigann, hér er sef, hér er bakki, hér er kyrrt og ljósblátt
vatn, og hér stendur þú á agnarlítilli, dúandi trébryggju og fylgist með þessu
öllu saman. Einn lítill gaur á þessari stóru, en samt svo litlu, plánetu.
Taktu upp minnisbókina þína og lýstu því sem þú sérð, hugsaði ég.