Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Qupperneq 98
S v e r r i r N o r l a n d
98 TMM 2015 · 4
Varðveittu þessu stund: Lýstu til dæmis ástföngnu fuglunum sem synda
þarna hlið við hlið í átt að bakkanum. Lýstu dádýrinu (hey, geðveikt –
dádýr!) sem stekkur svo tignarlega yfir engið hinum megin við vatnið. Lýstu
þessu háa, blaktandi grasi. Lýstu gula sefinu. Lýstu litla hvíta árabátnum og
ljósgræna slýinu í vatnspollinum milli sætisfjalanna.
Lýstu lýstu lýstu.
Og svo:
Nei!
Leyfðu sólinni að skrifa veröldina.
***
Mig dauðlangaði í kaffi svo að ég tók stefnuna á meginbygginguna. Ég var
svo frá mér numinn yfir tunglinu – sem var akkúrat hálft og alveg ótrúlega
bjart og fallegt – að ég traðkaði næstum á snigli. Þetta var svona snigill
eins og úr Disneyteiknimynd, hvítur slímkenndur búkur með ljósbrúnum
kuðungi, hann var á stærð við pappírsgatara og ég bograði yfir honum, hug
fanginn, dró aftur upp minnisbókina mína og byrjaði að teikna hann. En
svo hugsaði ég: Nei! Hættu þessu. Slappaðu af! Hættu að teikna og skrifa!
Svo að ég rölti áfram að mötuneytinu í von um að geta hitað mér kaffi, nú
með athyglina límda við göngustíginn frekar en landslagið, lafhræddur um
að traðka á einhverjum af þessum fögru spekingslegu sniglum sem læddust
þarna út á morgnana, sjálfsagt voru það einu stundirnar þar sem þeir voru
nokkurn veginn hólpnir undan traðki mannanna. Á leiðinni taldi ég samtals
sjö snigla. Skyndilega var ég hálfklökkur af gleði. Sjá alla þessa stóru, feitu
snigla!
***
Ég tók í hurðarhúninn á skólabyggingunni; yes, opið! Mundu: Nú ertu á lítilli
eyju í Svíþjóð en ekki í stórborg í Bandaríkjunum. Hér treystir fólk hvert
öðru. Svo að ég þurrkaði af skónum á svartri mottunni og rölti inn fyrir. Fáir
staðir eru betri en bókasöfn á bjartri sumarnóttu, auð og kyrrlát geyma þau
þúsund veraldir. Ég dró bók eftir Helle Helle fram úr hillu, gekk svo inn í
mötuneytið og hitaði mér instantkaffi, settist við gluggann.
Úti spruttu upp blóm milli hellusteinanna á veröndinni og virkuðu svo
sátt og afslöppuð í hlutverki sínu, uxu bara þarna falleg og ilmandi og þurftu
ekki að sanna neitt fyrir neinum.
Í fjarska galaði haninn.
Ekki oft sem maður er vaknaður langt á undan hananum! hugsaði ég og
stóð svo upp til að pissa, áður en ég lagaði mér annan instantkaffi.
***