Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Blaðsíða 14
Katrín Jakobsdóttir
ímyndina sérstaklega; fremur mynda íslensk borg og sveit eitt stórt, kyrr-
stætt samfélag:
Goodmann Johnson hafði eiginlega ekki litist á blikuna í Reykjavík. Hann var
vanur því að vestan að flýta sér og hafa augu á hverjum fingri þrátt fyrir aðgang-
inn. En hér fundust honum allir læðast, eins og lífið væri eilífð, en eilífðin sjálf
ekki neitt. Og honum virtist menn helst ekki veita neinu í kringum sig eftirtekt,
eins og ekkert myndi geta vakið þá í þeim efnum nema helst, ef t.d. lítið alþingis-
hús hryndi ofan í kollinn á þeim, eða þá, að menn til að mynda álpuðust til að
misstíga sig og detta út af hnettinum.10
Þannig sér vesturíslenski einkaspæjarinn Goodmann Johnson Reykjavík.
í samanburði við ys og þys bandarískra stórborga virðist hún rólegur bær
þar sem ekkert gerist. New York er lýst á annan hátt. Væri horft niður á
göturnar ofan af 13. hæð í háhýsi:
... myndi margan snarsundla og hann ríghalda sér, því að það væri engu líkara
heldur en að hann stæði uppi á kletti og horfði ofan í kolmórautt fljót, sem rynni í
gljúfrum, hringiðandi og á flúðum, svo að alls staðar í sortanum sæjust hvítir
toppar, þar sem bryti. En þegar hann hefði starað og haldið sér um stund, myndi
hann fara að greina, að fljótið væru menn, sem nú sæjust í eðlilegri smæð, og
vagnar, hvað innan um annað þjótandi sitt í hvora áttina, alt á harða spretti. (124-5)
New York er lýst á háleitan hátt en hið háleita hefur gjarnan verið
aðgreint frá hinu fagra. Saga hins háleita hefur verið talin samofin nýrri
náttúrusýn vestrænna manna á síðari öldum. Hugtakið tengist því sem er
hrikalegt eða mikilfenglegt á einhvern hátt og vekur lotningu og ótta
andans." Þegar því er lýst hvernig margan myndi „snarsundla“ við að
horfa niður á umferðina eins og „kolmórautt fljót“ gerir það mynd borg-
arinnar hrikalega og ógnvekjandi en um leið heillandi. Raymond Willi-
ams hefur einmitt bent á að umferð sé birtingarmynd meðvitundar og
félagslegra tengsla. Gamlar lýsingar á borgum þar sem lýst er straumi
manna endurómi þegar við horfum á nútímaborgina og sjáum straum
bíla.12 Michel de Certeau segir að menn sjái sjaldnast umferðina í heild
sinni frekar en borgina í heild sinni. Menn eru flestir í hringiðunni sjálfir
þannig að þeir skynja ekki straum bílanna eða heildarmynd borgar-
innar.13
í New York virðist umferðin vera óstjórnleg eins og náttúruöflin sem
birtast í straumharðri jökulá, og sá sem stendur fyrir utan reynir að halda
sér til að hann berist ekki stjórnlaust með straumnum. Umferðin er ein-
kenni borgarinnar og til marks um áhrifaleysi einstaklingsins í henni.
12
TMM 2005 • 1