Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Page 51
Líf og önd
Jón og konan höfðu byrjað að vera saman í grunnskóla. Enn þann
dag í dag var samband hennar við hann lengra en samband hennar
við manninn. Hún hafði upplifað allt í fyrsta skiptið með Jóni.
Hún hafði orðið eitt með Jóni og afraksturinn svaf á milli hennar
og mannsins í hjónarúminu.
En maðurinn hafði alltaf getað huggað sig við það að þó hann
væri númer tvö, þá stæði hann númer eitt framar að öllu leyti.
Væri, ef svo mætti segja, númer eitt í gæðaröðinni. En núna, dag-
ana áður en númer eitt var jarðaður, fann hann það svo átakanlega
að hann var númer tvö. Þegar hann lá einn í hjónarúminu og
konan var læst inni á baðherbergi - þá var hann númer tvö.
Jón hafði aldrei búið með annarri konu. Að minnsta kosti ekki
svo að maðurinn vissi til. Hann var ekki einn af þeim sem kom
með nýja og nýja kærustu á pabbahelgarnar. Raunar kom hann
ekki einu sinni alltaf sjálfur á pabbahelgarnar. En þegar hann kom
horfði hann á fyrrum konu sína með svo ódulinni aðdáun og eff-
irsjá að maðurinn fylltist stolti yfir því að eiga hana - og lagði sig
fram um að nýta tímann án barnsins sem best.
Hann hafði aldrei þorað að orða það, ekki einu sinni innra með
sér, en honum fannst það góð tilfinning að hafa eitthvað á sínu
valdi sem einhver annar þráði svona heitt. Það var eitthvað frum-
mennskt í honum sem naut þess að hafa haft betur í viðureigninni
við annað karldýr. Þar skipti engu að konan hafði sagt skilið við
Jón áður en hún tók saman við manninn. Hann hafði borið sigur-
orð í þeirri baráttu og það var allnokkurs virði.
*
Hann var bjargarlaus þegar hann sat við hlið hennar á fremsta
kirkjubekknum. Þau voru dökkklædd og hún grét hljóðum tárum
alla athöfnina meðan hönd hennar lá máttvana í hans. Hún var
ekkjan sem sá látni skildi ekki eftir sig. Hann var maðurinn sem
hafði dregið ekkjuna á tálar.
Maðurinn var hunsaður í erfisdrykkjunni. Gamlir drykkju-
bræður hins látna kiöppuðu drengnum á kollinn orðalítið. Konan
sat grátbólgin með móður Jóns og foreldrum sínum, sem virtust
alsæl að hitta fýrrum tengdafjölskyldu dótturinnar á ný.
Maðurinn varpaði öndinni léttar þegar þau komu heim. Nú var
TMM 2005 • 1
49