Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Side 54
Arndís Þórarinsdóttir
Morguninn sem Gluggagægir færði barninu rafmagnshljóm-
borðið hringdi leikskólastjórinn. Sagðist hringja í hann úr því að
konan væri hætt að vinna á staðnum sem leikskólinn væri með
skráðan. Áminnti hann um leið að af öryggisástæðum yrðu for-
eldrar að láta vita af slíkum breytingum. Sagði svo með festu að
stjórn leikskólans sæi sér ekki annað fært en að fara fram á að
taumlausu gjafaflóði til barnsins yrði hætt. Að barn sem alltaf fengi
mandarínu hefði farið að skæla þegar sögur af rafmagnshljóm-
borðinu bárust í sandkassann.
Þegar samtalinu lauk fór maðurinn að skæla.
Um kvöldið orðaði hann það við konuna hvort hún ætti að leita
sér aðstoðar. Hann minntist ekki á samtalið við leikskólastjórann,
né heldur spurði hann hvar hún héldi sig á daginn.
Hún læsti sig inni á baðherbergi. Bergmál ekkasoganna barst
fram á ganginn þar sem maðurinn stóð ráðþrota og spurði barnið
hvort það vildi prófa að tannbursta sig í eldhúsvaskinum.
Þá um kvöldið kraup maðurinn við rúmstokk barnsins og
breiddi yfir það. Því næst dró hann djúpt andann og hóf að þylja
bænasúpuna sem var nýlega orðin hluti af því ferli sem þurfti að
ganga í gegnum áður en barnið fór að sofa.
Þeir gösluðust í gegnum Faðirvorið, hálfsungu Ójesúbróður-
besta og skutust í gegnum Sitjiguðsengla. En þegar kom að lín-
unum „Legg ég nú bæði líf og önd“ þögnuðu þeir báðir. Þeir horfð-
ust í augu, maður og barn, yfir tvö pör spenntra greipa. Maðurinn
sá augu barnsins taka örlítinn kipp - líkt og það vildi gjóa þeim
fram í eldhúsið en dirfðist það ekki. Hann hélt niðri í sér andanum.
Það var barnið sem rauf þögnina, hélt dálítið hikandi áfram með
bænina, en lokaði ekki augunum fyrr en henni var lokið.
Daginn eftir, þegar hann var búinn að hugga barnið sem fékk
mandarínu frá Gáttaþef, hringdi hann í lögfræðing til að spyrja um
sviptingu sjálfræðis. Lögfræðingurinn taldi að það þyrfti meira til
en nokkrar vikur af skælum, eitt glatað starf og eina myglaða önd.
Hann ráðlagði manninum að bíða þangað til hann gæti sannað
rökstuddan grun um að konan gæti verið hættuleg sjálfri sér eða
öðrum. Maðurinn velti því fyrir sér að spyrja í hvaða formi slíkur
rökstuðningur gæti verið, en ákvað að sleppa því.
Á Þorláksmessu spurði hann hikandi hvað hann ætti að kaupa í
52
TMM 2005 • 1