Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Blaðsíða 102
Bókmenntir
Kristján Jóhann Jónsson
Sá sterkasti og veikasti
meðal mannanna
Jón Viðar Jónssson: Kaktusblómið og nóttin. Um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjóns-
sonar. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri, 2004.
Kaktusblómið og nóttin eftir Jón Viðar Jónsson er merk bók og mikilvæg. Hún er
á engan hátt hefðbundin ævisaga. Þó að Jón Viðar reki ævi Jóhanns Sigurjóns-
sonar (1880-1919) frá vöggu til grafar, er engin megináhersla lögð á rás atburð-
anna heldur farið fljótt yfir upphaf og endi hinnar stuttu ævi Jóhanns. Sagt er frá
samferðamönnum og áhrifavöldum í stuttum, nánast sjálfstæðum köflum og
allt er skoðað út frá þeirri miðju sem líf og list Jóhanns er í þessari bók. Átaka-
punktar verksins sjást glögglega í byggingu þess þar sem ævisögukaflar, tengdir
og skýrðir með túlkun á ritverkum Jóhanns, skiptast á við túlkanir á verkum
hans, tengdar og skýrðar af einstökum þáttum ævisögunnar. Þessi skipting er
ekki hrein og reglubundin. Kaktusblómið og nóttin fylgir tíma Jóhanns og víkur
að bókmenntum og ævisöguatriðum eftir því hvað er á döfinni í lífi hans. Það
þýðir að hún er meira en ævisaga. Að drjúgum hluta til er hún bókmenntafræði-
legt verk sem fæst við lestur á leikritum hans og ljóðum og skilgreiningu á tíma-
bilinu. Bókmenntir Jóhanns eru þannig látnar útskýra sögu hans og saga hans
notuð til þess að túlka bókmenntir hans.
Jón Viðar Jónsson lýsir því í 33. kafla bókarinnar sem heitir „Kenning Peters
Szondi og leikrit Jóhanns“ hvernig fagurfræðileg viðmið grísku leikritaskáldanna
eru hætt að standast um aldamótin 1900. Þetta voru frjóir tímar í leikritun. Ibsen
(1828-1906), Strindberg (1849-1912) og Tsjekhov (1860-1904) höfðu látið til
sín taka í Evrópu. Skáldin voru milli viðmiða, í deiglu sem einkenndist af mikil-
vægum breytingum, leit og sálkönnun. Öll verk Jóhanns spegla huglæga reynslu
hans sjálfs, átök og baráttu sem jafnframt einkennir nýrómantíska tímabilið
kringum aldamótin. Að breyttu breytanda mætti segja það sama um verk Jóns
Viðars - allt sem þar er tekið til umræðu varpar einhvers konar ljósi á hinn marg-
brotna og dramatíska snilling. Jón Viðar tekur sér stöðu með sínu skáldi, afstaðan
til hans er nánast rómantísk á köflum og upphafin. Um þetta mætti nefna ýmis
dæmi en skýrt kemur þetta viðhorf meðal annars fram í túlkun á umsögn
Jóhanns í bréfi til bróður síns um framtíð fjölskyldunnar. Jóhann segir í bréfinu:
Ég óttast þennan blinda leik sem heitir gæfa og ógæfa. Ég hefi einhverja ónota tilfinning
af því að okkar ætt sé hamingjusnauð en ekki er vert að gera sér grýlu úr því. (Bls. 22)
Jón Viðar spyr hvað í ósköpunum Jóhann geti hafa haft fyrir sér í þessu og hvort
hann hafi séð teikn á himnum. Síðan svarar hann spurningu sinni og segir:
„Auðvitað sá skáldið lengra en aðrir“. (22)
100
TMM 2005 • 1