Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Page 52
Arndís Þórarinsdóttir
þetta búið. Auðvitað myndu þau syrgja áfram, konan og barnið, en
það myndi taka á sig aðra mynd. Það yrði ekki jafn ... ofsafengið.
Ekki jafnákaft. Nú var dauði Jóns fortíð fremur en nútíð.
í huganum reyndi hann að rifja upp hvað stóð í menntaskóla-
námsbókunum hans um það hvað væri eðlilegt að syrgja látinn
maka lengi. Velti því fyrir sér hvaða tölu væri eðlilegt að deila með,
í þeim tilfellum þar sem makinn er fyrrverandi maki. Velti því fyrir
sér hvenær konan yrði aftur hans.
Þegar konan spurði hann dauflega hvort hann væri svangur,
neitaði hann kannski ákafar en tilefni var til. Þau vissu bæði hvað
fólst í spurningunni. Þann daginn fékk andarskrokkurinn að hvíla
í friði í myrkvuðum ísskápnum.
Daginn eftir jarðarförina spurði maðurinn hikandi hvort það
væri ekki kominn tími til þess að afskrifa öndina - það væri satt
best að segja farið að slá í hræið.
„En ... Við ... Við getum ekki bara hent fuglinum.“ Konan virt-
ist skelfingu lostin við tilhugsunina.
„Af hverju ekki? Við getum tæpast borðað hann heldur, úr
þessu?“ Konan virtist ringluð við spurninguna.
„En ... Þú sérð það sjálfur. Við getum ekki ... Ég get ekki bara
... Svona fínn matur!“
„En það varst þú sem ákvaðst að elda hana á mánudegi, vina
mín.“ sagði maðurinn sefandi röddu. „Þú vildir ekki geyma hana
til jóla heldur elda hana strax ... Ég hélt að þér þætti önd ekki einu
sinni góð?“
„En ...“ Konan hrukkaði ennið.
„Ástin mín, á ég ekki bara að fara með þetta út í tunnu?“ Mað-
urinn var blíðmæltur, en orð hans féllu í grýttan jarðveg. Konan
afmyndaðist af reiði, kreppti smáa hnefana og hvæsti á hann.
„Þú kemur sko ekki nálægt þessari önd! Hún fer ekki fet. Ekki
fet! Þó ég þurfi að sofa fyrir framan ísskápinn þá ... “ Og að því
mæltu opnuðust flóðgáttirnar á nýjan leik og konan hné skjálfandi
niður á eldhúsgólfið.
Öndin fór ekki fet.
*
50
TMM 2005 • 1