Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Page 59
Kristian Guttesen
Elskan mín
Ferðalok
eða Gömul saga
Það getur stundum komið manni í opna skjöldu - verið köld vatnsgusa
eða líkt og að fá aðsvif - að lesa orð sem eru svona einlæg. Ég gerði mér
aldrei í hugarlund hversu einlæg þú ert, né að þú værir það ekki. En
segðu mér satt, ef þér fínnst ekkert hafa breyst síðan við vorum saman -
sumarið 1994 í ísrael. Að í einfeldni minni gagnvart tilfinningum þínum
þá sé allt við það sama? Hversu undursamlegt það hefði verið - nei,
heldur átti að vera - að fá að þekkja þig eins og þú speglar þinn eigin
trega. Hversu foreldrar þínir hljóta að hafa hatað mig. Aðeins í djúpu
þunglyndi getur eitthvað snert mann - manns hjarta, tilfinningar og sál.
Ég veit það ekki, og gerði það aldrei.
Það eru tíu síðan, nánast upp á dag. Ég hugsa mikið um Rauða hafið í
Eilat. Reyndar um allt og alla. Þá sem ég kynntist og allt sem gerðist og
gerðist ekki. Um fyrstu nóttina þegar ég, þú og Anat fórum á ströndina.
Og þú spurðir mig síðar: „Hvað ef Anat hefði farið út í með þér?” Manstu
eftir þessu? Auðvitað gerir þú það. Ég svaraði eitthvað á þá leið að „allt
sem gerist í lífmu er á valdi örlaganna.” Manstu ekki eífir þessu? Jú,
auðvitað gerir þú það.
Nótt eina lágum við og horfðum á næturhimininn. Og ég benti þér á
nokkrar stjörnur. „Þetta eru stjörnurnar okkar,” sagði ég. Og við
kysstumst. Svo ekki halda að ég sé sneyddur tilfmningum. Ég sakna þín
líka. Eða réttara sagt, kópía af mér saknar kópíu af þér. Er það ekki?
Auðvitað er það svo.
Bréfið frá þér er stutt og hnitmiðað. Ég vona í öllu falli að þú hafir í
millitíðinni fundið þér einhverja hamingju. Eins þó ég hafi brugðist þér.
Það er satt. Áfallið sem ég fékk við að lesa bréfið þitt opnaði augun mín
og var löngu orðið tímabært. Ég gleymi þér aldrei.
Ástarkveðja K
TMM 2005 • 1
57