Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Side 74
Jón Yngvi Jóhannsson
Jón Yngvi Jóhannsson
Glæpur, refsing, ábyrgð
Um íslenskar skáldsögur árið 2004
í einni af hressilegri bókum ársins, Hugsjónadruslunni, fyrstu skáldsögu
ísfirðingsins Eiríks Arnar Norðdahl, er kafli með glettilega góðri lýsingu,
ekki bara á kynslóð sögumanns, heldur kannski ekki síður á menningar-
ástandi. Við erum stödd í upphafi sögu þar sem sögumaður og annað sjálf
höfundarins, Þrándur, er á leið til Færeyja. Hann er blankur en rekst á Jón
nokkurn pönkara sem samþykkir að halda honum uppi á bjór þar til þeir
koma til Þórshafnar og finna hraðbanka. Þrándur lýsir þeim félögum svo:
Jón var stuttur rauðhærður pönkari. Ég var slána-bóhem-kommi. í sögu tuttug-
ustu aldarinnar skildu 20 ár okkur að. Og Atlantshaf. Hann var London 1979, ég
var New York 1959. Samt vorum við jafnaldrar á sama skipinu á leið til Færeyja.
Slíkur var mikilfengleiki okkar tímalausa og persónulega stíls. Það var allt að því
óumflýjanlegt að við Jón myndum kynnast. Við vorum af sömu kynslóð, tveir um
borð innan um miðaldra uppgjafahippa og úrkynjaða síðuppa. Svo frjálsir að
olckur var orðið sama. Við myndum sjálfsagt aldrei skilja að við værum hluti af
neinu. Ég kæmi ekki til með að skilja það, og hann kæmi ekki til með að skilja
það. Við vorum hvor um sig einn. Og saman vorum við II. Við yrðum aldrei tveir
í einni einingu, heldur ævinlega og alltaf II í tveimur strikum hlið við hlið. Jón
með rauðan og lufsulegan hanakamb og svarta pinna upp nefbakið; ég með six-
pensara og pípu. Jón kunni að taka ljósmyndir, og ég kunni að spila á gítar. (25)
Það er freistandi að taka þessa hugmynd Þrándar og Eiríks, um marga
áratugi í einni kynslóð og bera hana að íslenskum bókmenntum nú um
stundir. Kannski eru íslenskar bókmenntir síðustu ára eitt samfellt alda-
mót þar sem mætast straumar og höfundar sem eiga sér ólíkar rætur og
stundum óvæntar. Menn geta skemmt sér við að velta því fýrir sér hver
sé Prag 1920 eða New York 1990, Suður Ameríka 1970 og svo framvegis.
Þetta væri svo sem nógu skemmtilegur samkvæmisleikur, en grínlaust þá
er það einkenni þessa jólabókaflóðs, líkt og síðustu ára, að það ríkir
ákveðin fjölbreytni. Ekki er lengur hægt að kvarta yfir því, eins og heyrð-
ist stundum á tíunda áratugnum, að öll umræða snúist um fjóra fimm
72
TMM 2005 • 1