Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Blaðsíða 79
Glæpur, refsing, Abyrgð
Þessar þrjár sögur fjalla um glæpi í samfélagslegu samhengi. Hver á
sinn hátt gera þær tilkall til þess að vera innlegg í íslenska samfélagsum-
ræðu. Hvergi er þetta þó jafn skýrt og í sögu Þráins sem fær einkunnar-
orð sín frá Georg Orwell, „In a time of universal deceit, telling the truth
becomes a revolutionary act.“ Sú gagnrýni hefur stundum heyrst á
liðnum árum að íslenskir höfundar fjalli ekki lengur um samfélagið sem
þeir búa í heldur séu þeir uppteknir af fortíðinni, hvort sem er í sögu-
legum skáldsögum eða minningum úr eigin barnæsku. Ég held raunar að
þessi gagnrýni byggi á býsna grunnum lestri á verkum margra okkar
fremstu höfunda, þó má sjá í bókum haustsins tilhneigingu til þess að
takast á við samtímann og samfélagsþróun hans á milliliðalausan hátt.
Hugtök eins og boðskapur og erindi sem hafa verið feimnismál í
íslenskum bókmenntum frá því í upphafi níunda áratugarins eru aftur á
dagskrá.
Þetta má sjá í tveimur nýjum skáldsögum sem fjalla um glæpi frá allt
öðru sjónarhorni en sögur þeirra Stefáns Mána og Þráins. Þetta eru ann-
ars vegar skáldsaga Braga Ólafssonar, Samkvœmisleikir, og hins vegar saga
Kristínar Ómarsdóttur, Hér. Þessar sögur eiga það sameiginlegt að nálg-
ast glæpi fremur út frá siðferðislegum og tilvistarlegum spurningum en
samfélagslegum.
Skáldsaga Braga Ólafssonar var nokkuð áberandi fyrir jólin sem sagan
sem var ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Margir þeirra
sem tjáðu sig um tilnefningarnar, ég sjálfur meðtalinn, lýstu furðu sinni
á því að bókin var ekki í hópi hinna útvöldu. Afleiðingin var sú að hún
fékk sennilega meiri athygli en þær bækur sem voru tilnefndar samanlagt
- tilnefningar geta verið tvíeggjað sverð.
Samkvæmisleikir er saga af þrítugum manni, prentnemanum Frið-
bert, hún hefst í þrítugsafmælinu hans og síðan eru raktir atburðir sem
gerast bæði fyrir þetta afmæli, í því og eftir það. Þetta eru örlagaríkir
atburðir bæði fyrir Friðbert og fólkið í kringum hann. Yfirborð sögunnar
er lygnt framanaf og andrúmsloftið minnir oft á fyrri sögur Braga þar
sem spennuþrungið tíðindaleysi ríkir. En það er ekki allt sem sýnist og
áður en varir fer sagan að snúast um glæpi og refsingar, hversdagsfólk
reynist vera fórnarlömb og ofbeldismenn, og spurningar um ábyrgð og
sekt verða áleitnar.
Þetta er saga sem kemur manni á óvart næstum því á hverri síðu. Eins
og áður í skáldsögum Braga þá getur maður hæglega lent í vandræðum
með það hvenær maður á að hlæja og hvenær að gráta. Sögumanni tekst
oft að plata lesandann, láta hann hlæja á vitlausum stöðum og skammast
sín svo á eftir, persónur sem virðast vænstu skinn og maður fylgist með
TMM 2005 • 1
77