Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Síða 27
Þáttur af Friðriki VII
Svo frábitið sem göfugmennið Kristján Friðriksson, faðir hans, var
konungdómi þá hlaut hann samt að taka við sprota og krúnu þegar Frið-
rik VI dó sonalaus 25 vetrum eftir að Svíar hrifsuðu til sín Noreg. Krist-
ján var hinn áttundi konungur í Danmörku með því nafni. Á stjórnarár-
um hans komu fleiri brestir í hið forna ríki frú Margrétar í Kalmar og
Kristjáns Þiðrikssonar og var þó ekki honum um að kenna. í hertoga-
dæmunum Slésvík og Holsteini hófust nú þær raddir sem afneituðu öllu
sem danskt var og gerðu kröfur um aukið sjálfræði og réru þýskir undir,
og norðan úr Dumbshafi barst mjó rödd er sagði íslendingum best að
standa á eigin fótum.
Friðrik Kristjánsson hafði lengi setið í Friðriksíuborg er faðir hans tók
við konungdómi. Er Kristján VIII hafði verið konungur í þrjá vetur lét
hann kalla Friðrik til sín. En það var ekki oft að fundum þeirra feðga bar
saman.
„Frændi,“ mælti konungur þá, „lengi hefur verið fátt í vorri ræðu og
er mál að linni. Vita megið þér að eftir vorn dag takið þér við sprota og
krúnu í Danmörku, og þó að annar starfi kynni að vera yður hentugri,
þá verður svo að vera. Megið þér og vita að ekki fýsti oss í konungdóm í
Danmörku, en enginn má sköpum renna og síst konungar. Það er því
vort heilræði að þér kynnið yður undir vorri handleiðslu allt sem að
konungdómi víkur og hvað má gagnast vorum þegnum. Viljum vér fyrst
fá yður gagnlegt kvonfang, því ekki má konungur landi stýra án drottn-
ingar. Er það nú vort boð að þér gangið að eiga Karlottu Maríönnu af
Mikluborg."
Við þessa ræðu konungsins setti mikinn hroll að Friðriki prinsi og
mátti hann engin andsvör veita. í öngum sínum skundaði hann á fund
vinar síns Karls berðlings. Þá hagaði svo til að ein þeirra kvenna, er Karli
berðlingi unnu og hét Lofísa Rasmussen, hafði þá nýverið fætt svein-
barn og kennt honum. Ekki vildi Karl berðlingur ganga að eiga Lofísu
en gekkst við faðerni drengsins. Lofísa var ættlaus, hún var barn þjón-
ustupíku er ekki vissi gjörla hvert væri faðerni stúlkunnar. Lofísa hafði
snemma sýnt dansfimi umfram aðrar meyjar, hún var kölluð Lofísa lip-
urtá og ráðin til að dansa í hinni konunglegu kómedíu.
Sem nú Friðrik Kristjánsson bar að garði Karls berðlings þá sat þar
Lofísa lipurtá í sal. Angist Friðriks rénaði allverulega í návist þeirra
beggja og fór sérdeilis vel á með honum og Lofísu, enda þau bæði hjarta-
góð og hispurslaus. Þau ráð réðu þau lipurtáin og berðlingurinn Friðriki
prinsi að hann færi að boðum föður síns en skyldi ávallt bera undir þau
öll vandræði hjónabandsins. Það var Friðriki til mikillar hughreystingar
og því fór hann að orðum föður síns og var nú enn efnt til brúðkaups.
TMM 2006 • 1
25