Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Blaðsíða 71
Skáldsagan og samtíminn
bóginn að aukapersónum eða jafnvel leikmunum. Þetta gefur frelsi og
svigrúm bæði fyrir söguhöfund og lesanda. Persónurnar verða marg-
brotnari, örlög þeirra áhrifameiri og nákomnari lesandanum.
Fyrri hluti Höfuðlausnar er ævintýraleg frásögn Jakobs af vinnunni
við kvikmyndina, full af bjartsýni og draumum. Kvikmyndalistin hel-
tekur Jakob og lífið virðist brosa við honum þrátt fyrir minniháttar
skakkaföll í ástamálum. Þetta er lífleg mynd af ungum manni og um
leið af Reykjavík á bernskuskeiði. Jakob er að taka út þroska og Reykja-
vík að breytast í borg. Það sem ræður úrslitum er að bæði komast í
snertingu við hinn stóra heim sem kvikmyndafólkið er fulltrúi fyrir.
í seinni hluta sögunnar er algerlega skipt um gír. Þar segir Jakob sögu
sína eftir að ævintýrinu lýkur, sögu sem hefst með fallegu ástarsam-
bandi hans og gulismíðanemans Ásthildar. En brátt fer allt á verri veg
og draumar Jakobs snúast smám saman upp í martraðir, metnaður hans
verður að harmrænni þráhyggju og smám saman fjarar undan flestu því
sem hann byggir heim sinn á. Þessir tveir hlutar sögunnar eru eins og
svart og hvítt, bjartsýnin og tilfinningin um að allt sé mögulegt í fyrri
hlutanum breytast í angist og vanmátt í seinni hlutanum.
í Höfuðlausn birtast aftur ýmis viðfangsefni úr bestu verkum Ólafs
Gunnarssonar. Rétt eins og aðalpersónur þeirra er Jakob haldinn þrá-
hyggju sem allt verður að láta undan, hann getur ekki beygt sig fyrir
veruleikanum og hlýtur þess vegna að brotna.
Nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur, Sólskinshestur, minnir
sömuleiðis um margt á hennar bestu bækur, stuttar skáJdsögur eða
nóvellur eins og Tímaþjófinn og Ástina fiskanna. Þetta á við um formið
þar sem frásögnin er ljóðræn og studd bæði frumsömdum ljóðum og
þéttum vísunum í þekkt bókmenntaverk. Hér eru það einkum Brekku-
kotsannáll og „Fyrsta bjartsýnisljóð: Um dauðann" eftir Sigfús Daðason
sem skipta máli.
Meginhluti sögunnar er lýsing á uppvexti aðalsöguhetjunnar og bróð-
ur hennar. Þetta er nöturleg lýsing á uppeldi hjá foreldrum sem er flest
vel gefið annað en mannleg samskipti. Þau eru bæði læknar, móðirin
meira að segja barnalæknir sem annast veik börn og bjargar lífi þeirra
af einstöku innsæi en virðist fyrirmunað að láta sér annt um þarfir eigin
barna. Þessi saga er öll sögð með íróníu sem er svolítið groddaleg á yfir-
borðinu. En það er stutt í sársaukann og ásakanir á hendur foreldrunum
sem sögukonan getur aldrei orðað sjálf vegna þess að hún hefur frá
barnæsku þurft að taka ábyrgð á þessari misheppnuðu fjölskyldu og
getur ekki vanið sig af því. Og þótt sumt í frásögn hennar sé fyndið á
svolítið harðneskjulegan hátt þá eru mörg lög í kaldhæðninni.
TMM 2006 • 1
69