Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Blaðsíða 81
Menningarvettvangurinn
yfirlestur. Eins og er sinna tímaritin, Skírnir, Saga, Andvari og TMM, fræðirit-
um nokkuð, en miklu fleiri yrðu almenningi kunn gegnum útbreitt dagblað.
Öðrum dagblöðum en Morgunblaðinu er að sjálfsögðu heimilt að nýta sér
þessa hugmynd.
Þröstur Helgason Lesbókarritstjóri harmaði það í málgagni sínu 21. jan. að
á íslandi væri ekkert hreint bókmenntatímarit. Ég held að þetta sé óþarfi - að
bókmenntaumfjöllun TMM, sem er þar í aðalhlutverki, græði á því að lítillega
sé sinnt um aðrar listgreinar í og með, og jafnvel pólitík líka. Eða myndi Þröst-
ur ekki kalla Times Literary Supplement bókmenntatímarit þó að þar séu
greinar um leikhús og pólitík?
Halldór Laxness - alltafí umræðunni
Við höfum verið rækilega minnt á það undanfarið ár að 2005 var hálf öld frá
því Halldór Laxness fékk Bókmenntaverðlaun Nóbels. Árið 1955 - eins og
núna á 21. öldinni - var sænska akademían djörf í vali sínu. Hún gerir sér
áreiðanlega grein fyrir því að þessi verðlaun deyja í vitund fólks ef þau verða of
fyrirsjáanleg, og hvað gat verið djarfara en veita þau höfundi sem kom frá
aggalitlu landi með örfáum íbúum en kaus samt að skrifa á móðurmáli sínu,
eins og forfeður hans höfðu gert mun lengur en Svíar skrifuðu bókmenntir á
sínu máli. Eins og ekki væri nóg að þessi rithöfundur kæmi frá landi sem fæst-
ir jarðarbúar höfðu hugmynd um að væri til heldur var hann líka óþekkur -
andófsmaður í hinum vestræna heimi, róttækur og opinskár um skoðanir
sínar allt frá unga aldri.
Eðlilega voru meðlimir akademíunnar ekki sammála um að veita Halldóri
þessi virtustu verðlaun sem rithöfundi geta hlotnast, en þvert gegn íhaldsemi
rótgróinnar stofnunar og þeirri hugsun að stórþjóðirnar séu merkastar afréðu
þeir að veita honum þau. Og ástæðan var ekki neins konar málamiðlun eða
smjaður heldur sú að þeir vissu að hann var einn magnaðasti rithöfundur sem
þá var á dögum í veröldinni. Við þurfum ekki annað en opna skáldsögurnar
hans, nánast hverja þeirra sem er, til að upplifa makalausa töfra hans einu sinni
enn.
Þess vegna er óskiljanleg sú umræða sem kom upp skömmu fyrir jól, eftir að
lokabindi þríleiks Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um ævi Halldórs kom
út, að akademíunni hafi einhvern tíma þótt raunhæfur og álitlegur kostur að
skipta verðlaununum á milli Halldórs og Gunnars Gunnarssonar - og að
íslenskir menntamenn hafi getað spillt fyrir því og gert það með skeyti. Gunn-
ar Gunnarsson er allrar virðingar verður í ljósi síns samtíma, en sem rithöf-
undur hefur hann hvergi roð við Halldóri. Öll verk hans þurfa afsökun, for-
mála, líka þau bestu - þau eru frá ákveðnum tíma og það ber að meta þau út
frá honum; síðan getum við sest niður og notið þeirra. Mörg bestu verk Hall-
dórs þurfa enga afsökun. Og það er ekki rétt sem var haldið fram í Lesbók að
Nóbelsverðlaunin hafi sett glýju í augu íslendinga svo að þeir hafi þá fyrst farið
að meta Halldór meira en alla aðra og Gunnar og Þórbergur fallið í skugga
TMM 2006 • 1
79