Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Page 97
Bókmenntir
Bjarni Bjarnason
Merkingarleysið kemur fyrst
Jónas Þorbjarnarson: hvar endar maður? Ljóð. JPV útgáfa 2005.
Ef maður læsi Jónas Þorbjarnarson sem tilvistarheimspeking yrðu grunnhug-
tökin hjá honum talin vera sex: 1. Merking. 2. Merkingarleysi. 3. Sjálf. 4. Sam-
runi (sjálfleysi). 5. Staðir. 6. Stundir. í öllum ljóðabókum sínum sjö veltir
skáldið þessum fyrirbærum fyrir sér frá öllum mögulegum sjónarhornum.
Hann skoðar hvort sjálfið geti yfir höfuð haft merkingu óháð stað og stund, og
ef svo er ekki, þá veltir hann fyrir sér hvernig þessum tengslum milli sjálfs,
merkingar, staðar og stundar er háttað.
Jónas Þorbjarnarson (f. 1960) er einn þeirra manna sem sér ekki merkingu í
tilverunni. Þeir þóttu sjálfsagðir hér áður fyrr, en í dag er þessi afstaða ávísun
á geðlyf. Það þykir ekki eðlilegt að sjá ekki merkingu í neinu. Samt er ekki hægt
að sýna fram á að lífið hafi merkingu og þess vegna fer tilvistarvandinn ekki
burt og verður aldrei óeðlilegt viðfangsefni, sama hversu sterkur rétttrúnaðar-
hugur heilbrigðiskerfisins verður.
Þrátt fyrir afstöðu Jónasar er ekki hægt að segja að hann hafi neikvæða sýn
á lífið eða sé í andstöðu við eitt eða neitt. Hann er bara heiðarlegur í vangavelt-
um sínum um hvernig er að vera til. í fyrstu bók sinni, í jaðri bœjarins (1989),
staðsetur hann sig gagnvart merkingunni, því sem kalla má merkingarvef.
Þessi vefur býr yfir innbyggðri samþykktri merkingu sem maðurinn býr sér til,
og í kjarna hans er margskonar fúndamentalismi. Merkingarvefurinn er þétt-
astur mitt í bænum en merkingin gisnar því utar sem dregur. Jónasi finnst
hann hanga á ysta þræðinum, og til þess að glatast ekki alveg út í merkingar-
leysið þykir honum nauðsynlegt að búa sér til litlar merkingarmyndir, eins og
kemur fram í ljóðinu „Ég styðst við merkingu" (bls.29):
held í þráðinn af því ég veit
í hinn endann
heldur enginn
held mig í teygjanlegri grennd
við þéttan vef
merkingar
þar sem syndirnar eru syndir
ekki
fyrirgefnar
spinn úr kulda og hita
sannindi
sem ég trúi að vild
TMM 2006 • 1
95