Heimsmynd - 01.03.1988, Blaðsíða 105
MAÐUR MANAÐARINS
JÓHANN
HJARTARSON
Hann átti ekki önnur
áhugamál en skákina, fór að
vísu í sund með hinum
strákunum, en var aldrei í
fótbolta eða öðrum álíka
íþróttum.
Allir vissu að þessi tuttugu og
fimm ára gamli Reykvíkingur
var efnilegur skákmaður og
átti framtíð fyrir sér í grein-
inni. Aðeins sautján ára gamall varð
hann íslandsmeistari í skák og þótti vel
að því kominn að verða efstur á milli-
svæðamótinu í sumar. Fæstum kom þó
til hugar, þegar hann fór utan til að tefla
einvígisskákina við Victor Kortsnoj, að
hann ætti eftir að leggja þennan mikla
skákmann og fyrrum heimsmeistara að
velli. Hvorki skákmeistararnir, eiginkon-
an, foreldrar né skákskýrendur voguðu
sér að vonast eftir slíkum árangri.
En hver er hann þessi ungi, hógværi
maður sem þjóðin hefur eignað sér?
Jóhann Hjartarson er sonur Hjartar
Magnússonar, lögskráningarstjóra í
Reykjavík, og Sigurlaugar Jóhannsdótt-
ur húsmóður. Hann er giftur Jónínu
Ingvadóttur, og saman eiga þau einn
son, Hjört Ingva sem er á fyrsta ári.
Jóhann fór að sýna skákinni áhuga í
kjölfar heimsmeistaraeinvígis þeirra
Fischers og Spasskís 1972, og þá var það
faðir hans sem kenndi honum mann-
ganginn. Skömmu síðar gekk hann í
Taflfélag Reykjavíkur. Jóhann er einka-
barn foreldra sinna, „var alltaf mjög
stilltur og yfirvegaður og gekk vel í skól-
anum,“ segir móðir hans. Hann átti ekki
önnur áhugamál en skákina, fór að vísu í
sund með hinum strákunum, en var
aldrei í fótbolta eða öðrum álíka íþrótt-
um. Hins vegar var hann oft í sveit sem
barn og naut sín vel á þeim slóðum.
Hann hóf nám í lögfræði haustið 1984
við Háskóla íslands, og kynntist þá Jón-
ínu konunni sinni. Þau voru skólasystkin
en auk þess lágu leiðir þeirra saman þeg-
ar íslandsmótið í skák var haldið á Hótel
Hofi, sama ár. Jóhann er því kominn á
fjórða ár í lögfræði, en varð að leggja
námið til hliðar í vetur, vegna undirbún-
ingsins fyrir einvígið. Hann hefur hins
vegar hug á að taka upp þráðinn áður en
langt um líður, en leiðir hugann ekki
mikið að lagakrókum sem stendur.
„Hann er vissulega svolítið utan við
sig,“ svarar Jónína kona hans þegar hún
er spurð hvort hann sé eins og snillingur
í umgengni, „en hann er reglulega góður
eiginmaður og kemur manni sífellt á
óvart.“
Þótt Jóhann hefði þegar getið sér gott
orð sem skákmaður áður en hann hélt
utan til fundar við Kortsnoj, hafði hann
engu að síður verið í mótbyr um skeið.
Margir muna keppnina um Norður-
landameistaratitilinn 1986, þegar Jóhann
tapaði öllum skákunum. Það hefur löng-
um verið haft á orði að í skákheiminum
- ekki síður en öðrum íþróttum - skiptist
á skin og skúrir, menn séu í öldudal af
og til. Jóhann komst upp úr þessum
öldudal, varð efstur á millisvæðamótinu í
fyrra og hélt utan. En þegar hann lék af
sér í fimmtu skákinni gegn Kortsnoj og
tapaði, héldu menn að nú væri öllu lok-
ið; maðurinn farinn á taugum.
En það sýnir meðal annars skapstyrk-
inn, að Jóhann náði sér upp eftir þessa
skák, enda álitinn hafa mjög sterka og
þar af leiðandi mjög góða skapgerð fyrir
skákíþróttina. „Hann er rólyndur, hóg-
vær og kurteis, en fastur fyrir og ákveð-
inn. Gífurlega mikill baráttumaður,"
segir Guðmundur G. Þórarinsson, sem
eins og aðrir átti ekki von á því að Jó-
hann kæmi sem sigurvegari út úr þessu
skákeinvígi.
„Jóhann hefur að öllu jöfnu haft mjög
heilbrigðan skákstíl," segir Jón L. Arna-
son. „Hann hafði það fyrir sið að sneiða
hjá flóknum stöðum og óljósum flækj-
um, og lagði yfirleitt mjög skýrar línur í
þeim skákum sem hann tefldi. Það kom
því mjög á óvart að sjá hvernig hann
tefldi við Kortsnoj; lagði fyrir hann
hverja flækjuna á fætur annarri, vitandi
að Kortsnoj er talinn mjög góður í flækj-
um. Hann minnti áþreifanlega á Friðrik
Ólafsson, og tók mun meira frumkvæði
en hann hefur gert áður.“
Jón L. Árnason gerði sér heldur ekki
vonir um sigur, þegar Jóhann hélt utan,
vissi sem var að Kortsnoj yrði ákaflega
erfiður, enda lífsreynt hörkutól. „Jóhann
lék kannski ekki alltaf bestu leikina, en
hann tefldi vel.
„Hann er ótrúlega alhliða skákmað-
ur,“ segir Guðmundur G. Þórarinsson,
eins og hann hafi ekki fyllilega trúað því
fyrr. „Hann sýnir styrk í öllum þáttum
taflsins; byrjun, stöðubaráttu og flækju,
virðist kunna best við sig í flóknu tafli og
leikur sóknina og vörnina mjög vel.
Hann hefur sýnt að hann býr yfir af-
burða styrk.“
Hvað sem því líður, þá fékk Jóhann
einstakt tækifæri þegar honum gafst
kostur á að tefla við Kortsnoj, og komast
þannig í hóp þeirra átta skákmanna sem
keppa um að fá að skora á heimsmeistar-
ann. Flest bendir til þess að í þeim slag
hafni hann á móti Karpov, fyrrverandi
heimsmeistara, svo þar gefst annað kær-
komið tækifæri til að innbyrða þá lífs-
reynslu sem fylgir því að tefla við einn
snillinganna.
„Það verður aldrei eins grimmur bar-
dagi við Karpov og var við Kortsnoj, því
Karpov er þekkt prúðmenni,“ segir Jón
L. Arnason. En líkt og aðrir talar hann
ekki um sigurlíkur í því sambandi, enda
kannski til fullmikils ætlast. En það var
heldur ekki talað um sigurlíkur fyrir ein-
vígið við Kortsnoj, og eins og Jónína
segir: „Jóhann er alltaf að koma mönn-
um á óvart.“ □
HEIMSMYND 105