Strandapósturinn - 01.06.1994, Blaðsíða 144
Halldór Jónsson Miðdalsgröf (1871—1912):
Munnmælasögur
Hœpið bjargráð
í tíð séra Hjálmars Þorsteinssonar prests að Tröllatungu bjó
bóndi einn á Tind í Tungusveit er Tómas hét. Hann var efnaður
vel, geyminn og fornbýll, ekki ósvipað því sem sagt er um Bárð
gamla á Búrfelli í Pilti og stúlku. Eitt sinn var þar músagangur
venju fremur mikill og átu þær fyrir honum bæði hangiket og
fleira. Kom það honum illa sem von var. Fell mikið er þar nokkru
framar í dalnum, sem Torffell heitir, er girðir því nær fyrir hálfan
dalinn. Honum kom til hugar að rnýsnar myndu ekki granda
matvælum sínum ef hann flytti þau eitthvað frá bænum, fór hann
því til og byggði hús uppi á fellinu úr grjóti og mosa og færði
þangað bæði hangiket, magála, lundabagga, smjör- og tólgarbelgi
o.fk, byrgði síðan vandlega og leið svo veturinn að hann vitjaði
ekki kofans. Svo var það einn dag um vorið að hann gengur fram á
Torffell til kofans, til að forvitnast um hvernig þar liði og sækja
urn leið eitthvað sem hann þarfnaðist. Sá hann þá, þegar inn kom í
kofann, að ekki hafði staður þessi verið svo óhultur sem hann
hugði, því ekki var annað eftir af hangiketskrofunum en beinin
ein, belgirnir götóttir og tómir, en nóg af músaskít og má nærri
geta hvernig lionurn hefur orðið við þetta, enda geymdi hann ekki
matvæli oftar í kofa þessum. En með þessu hafði hann þá fengið
reynslu fyrir því, að mýs eru víðar en við bæina.
Ennþá sést glöggt fyrir tóftinni að kofa Tómasar hæst uppi á
fellinu og hefur hann staðið við klett, tóftin er hér um bil 4 álna
löng og 3 álna breið.
142