Strandapósturinn - 01.06.1994, Blaðsíða 151
Álfkonan
Svo heyrði ég ömmu mína Karítas Níelsdóttur segja, að þegar
hún bjó að Ingunnarstöðum í Geiradal var það oft þegar krakkar
hennar voru að leika sér við hamar sem er þar nærri bænum, að
hún sá að börnin voru fleiri en þau áttu að vera, án þess þó að
börnin af næsta bæ, Tindum, kæmu til þeirra og sagði hún að það
mundu hafa verið álfabörn.
Einu sinni dreymdi hana að kona kæmi til sín og segðist eiga
heima í hamrinum, sagðist hún oft lofa börnunum sínum að leika
sér með börnunum hennar. Sér væri ánægja í að sjá þau leika sér
saman og hún megi vera alveg óhrædd um að þeim verði ekkert
illt gert. Sagði hún að sér þætti svo vænt um börnin hennar, því
þau væru svo stillt og siðsöm. En hún ætlaði aðeins að biðja hana
að áminna þau að hafa ekki hávaða rétt hjá hamrinum, því að hún
ætti þá svo bágt með að svæfa yngri börnin sín og lofaði amma því.
Oftar en einu sinni dreymdi hana konu þessa.
Vinnukona var hjá ömmu minni sem Arngerður hét, hún hélt
með einum krakkanum. Hann hét Pétur og var þá ungur og enn
ekki farinn að leika sér með hinum krökkunum. Dreymdi hana þá
einu sinni álfkonuna í hamrinum og þykist hún segja við hana:
„Ég ætla að biðja þig fyrir hann Pétur minn, þegar hann fer að
leika sér hjá hamrinum.“ Þá þykir henni konan segja: „Þú þarft
ekki að biðja mig þess, því hann leikur sér aldrei hjá hamrinum."
Hélt Arngerður af þessum orðum álfkonunnar að drengurinn
yrði skammlífur. En vorið eftir fluttu þau amma mín búferlum að
Tindum og léku börnin sér ekki eftir það við hamarinn, því þá var
lengra til hans en áður og kom þar fram það sem álfkonan sagði.
Eftir að hún var komin að Tindum, sá hún oftar en einu sinni
dreng hér um bil 8—10 ára, laglegan með ljóst hár, koma að
hrískesti sem var þar á hlaðinu og taka hríslu, hvarf hann svo
eitthvað í burtu og þóttist hún vita að þetta væri álfapiltur.
Ekki man ég eftir að ég heyrði hana geta um að hana dreymdi
konuna í hamrinum eftir að hún fór að Tindum.
149