Saga - 2017, Qupperneq 19
vegna stjórnarhátta þar heldur að Haraldur hafi takmarkað útflutn-
ing með því að koma á skatti, svokölluðum landaurum, á fólk sem
sigldi milli Noregs og Íslands. Ef marka má elstu heimildir voru
fyrstu landnemar á Íslandi innflytjendur en ekki flóttafólk.5
Í yngri heimildum, t.d. varðveittum gerðum Landnámu, er getið
um innflytjendur frá öðrum löndum en Noregi, sérstaklega frá
Bretlandseyjum. Þar er m.a. að finna sögur um írska þræla Ingólfs
og Hjörleifs, meintra upphafsmanna að landnámi Íslands. Ljóst er
að Íslendingar, sem rituðu um efnið á 13. öld, voru hrifnir af hug-
myndinni um keltneskan uppruna sumra landnámsmanna, sérstak-
lega ef rekja mátti þá til írskra konunga. Þannig voru ættir land-
námsmanna raktar til kjarvals Írakonungs og í Laxdæla sögu er frá-
sögn um írska konungsdóttur, Melkorku Mýrkjartansdóttur, sem
seld var í þrældóm en gerðist svo frilla íslensks höfðingja og eignað -
ist merka afkomendur. Landnámsmaðurinn á Sauðafelli, höfuðbóli
Sturlunga á 13. öld, var sagður vera Erpur, sonur Melduns jarls á
Írlandi, og þannig mætti lengi telja. Augljóst er að á þeim tíma þegar
Íslendingasögur og elstu varðveittar gerðir Landnámu voru ritaðar
skipti mun meira máli að vera stórættaður en að vera af hreinrækt -
uðum norskum uppruna.
Á 20. öld veltu margir fræðimenn, og enn fleiri áhugamenn um
sögu, fyrir sér keltneskum landnámsmönnum. Sú hugmynd fór að
breiðast út að markviss þöggun ríkti um hlut kelta í Íslandssögunni.
Auðvelt er að sjá aðdráttarafl slíkra hugmynda miðað við aðstæður
í samtímanum. Líkt og Íslendingar voru Írar nýfrjáls þjóð í upphafi
20. aldar, höfðu brotist undan yfirráðum Breta á sama tíma og
Íslend ingar brutust undan yfirráðum Dana. Líkt og Ísland var Ír -
land lýðveldi en ekki konungsríki eins og Noregur, Danmörk eða
Svíþjóð. Þá er bókmennta- og skáldskapararfur Íra frá fyrri hluta
mið alda afar glæsilegur og sambærilegur við sagnaarf Íslendinga
frá seinni hluta miðalda. Ekki er einkennilegt að Íslendingar hafi
gripið á lofti vísbendingar um skyldleika við Íra. Vandinn er þó sá
að helstu heimildir um tengsl Íslendinga og Íra voru þær sömu og
sakaðar voru um að standa fyrir kerfisbundinni þöggun á slíkum
tengslum, nefnilega ritheimildirnar. Fornleifar og rannsóknir á hús -
álitamál — sagan og samtíminn 17
5 Sjá t.d. Gert kreutzer, „Das Bild Harald Schönhaars in der altisländischen
Literatur“, Studien zum Altgermanischen. Festschrift für Heinrich Beck. Ritstj. Heiko
Uecker. Ergänzungsbände zum Reallexikon der germanischen Altertumskunde
11 (Berlin: Walter de Gruyter 1994), bls. 443–61.
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 17