Saga - 2017, Qupperneq 35
eru víðast boðnir velkomnir og allt er gert til að auðvelda þeim
dvölina á framandi slóðum en þeir sem tilheyra síðari hópnum
þurfa að laumast á milli landa þannig að, svo við vitnum í Bauman,
þeir „greiða oft meira fyrir ódýrasta farrýmið í illalyktandi og ósjó-
færum fleytum en hinir fyrir ríkmannlegan lúxus á viðskipta-
farrýmum“. Í flugvélum og skipum, lestum og bílum ferðast því
tveir ólíkir en tengdir hópar fólks — stundum í sömu farartækj un -
um en oft þó algerlega aðskildir; annars vegar eru þeir sem Bau -
man kallar „ferðamenn“ (e. tourists) og hins vegar eru „förumenn“
(e. vagabonds). Ferðamennirnir flakka heimshornanna á milli, sann -
færðir um að þeir séu frjálsir ferða sinna, en förumennirnir eru
annaðhvort á flótta frá óbærilegum aðstæðum eða laðast að því lífi
sem býðst á öðrum slóðum. „Ferðamennirnir ferðast vegna þess að
þeir vilja það“, skrifar Bauman, en „förumennirnir vegna þess að þeir
eiga engra annarra bærilegra kosta völ.“39
Á meðan heimurinn skiptist upp í svæði þar sem fólk býr annars
vegar við öryggi og allsnægtir og hins vegar við fátækt og stríðsátök
munu förumenn gera sitt ýtrasta til að klífa þá múra sem forrétt-
indalöndin reisa á landamærum sínum til að loka þá úti. Hér takast
á tvær kenndir í manninum, þ.e. annars vegar viljinn til að verja sína
þúfu og hins vegar þráin eftir því að freista gæfunnar á nýjum stað,
eins og danski sagnfræðingurinn Henrik Jensen hefur réttilega bent
á.40 Þúsundir Íslendinga fluttust þannig vestur um haf á tímabilinu
frá 1870 til upphafs fyrri heimsstyrjaldar í leit að bjartari framtíð, á
sama tíma og ákall um að fólk beygði sig möglunarlaust undir
skylduna við Ísland var áberandi í blöðum, á fundum og í ætt-
jarðarljóðum.41 Þá var krafan sú að Íslendingar sætu heima til að
þjóna landi og þjóð en nú eigum við berjast fyrir Ísland og Íslend -
inga með því að bægja útlendingum frá landinu. Það mun aldrei
takast, því að rétt eins og margir Íslendingar vilja flytjast annað þá
munu aðrir vilja flytjast hingað. Hvaða áhrif aukin fjölbreytni mun
hafa á íslenska þjóð og samfélag á eftir að koma í ljós, en um þau
mál verður örugglega deilt um langa framtíð.
álitamál — sagan og samtíminn 33
39 Zygmunt Bauman, Globalization. The Human Consequences (New york: Colum -
bia University Press, 1998), bls. 77–102.
40 Sjá Henrik Jensen, „A Migrating Species? Or ‚Dort, wo du nicht bist, dort ist
das Glück!‘“. Í: Ann katherine Isaacs, ritstj. Immigration and emigration in histori-
cal perspective (Písa: Edizioni Plus – Pisa University Press, 2007), bls. 1–6.
41 Guðmundur Hálfdanarson, „‚Are you Leaving My Dear friend!‘ Iceland in the
Time of Immigration to America“, Mormon Historical Studies 17 (2016), 243–261.
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 33