Saga - 2017, Page 62
Í bréfi stiftamtmanns kemur ekki fram hvers vegna konungur
ákvað að minnka hópinn niður í tólf fjölskyldur. Hannes Þorsteins -
son telur víst „að grænlenzku nefndinni hafi vaxið allur þessi kostn -
aður nokkuð í augum, og viljað lækka seglin“.54 Sennilega hefur
kostnaður af þeim norrænu landnemum sem dvöldu á Grænlandi
verið orðinn hár og dönskum stjórnvöldum orðið það ljóst á þessum
tíma hversu misheppnuð sú framkvæmd var.55 Nokkuð ljóst má þó
telja að hlustað hafi verið á áhyggjur ráðamanna hér á landi yfir að
missa fólk úr landi. Þetta kemur fram í bréfi Gyldencrone stiftamt-
manns til Grænlandsnefndarinnar en þar vísaði sá fyrrnefndi í bréf
sem Steindór Helgason, sýslumaður í Hnappadalssýslu, hafði ritað
honum þann 1. október 1729 og Jens Madsen Spendrup, sýslumaður
í Skagafjarðarsýslu, þann 11. sama mánaðar. Sögðu sýslumennirnir
að vegna fámennis á Íslandi þyldi landið ekki að missa of mikinn
fjölda fólks úr landi.56 Spendrup, sem hingað til hafði ekki komið
við sögu í þessu máli, blandaði sér hér óvænt í atburðarásina.
Steindór Helgason virtist hafa miklar áhyggjur af Grænlands -
málinu og sennilega hafa þeir Spendrup talað sig saman um þetta
mál. Í skráningu Steindórs á manntalinu í Hnappadalssýslu má
greina umhyggju hans fyrir íbúunum enda eru þeir margir hverjir
sagðir of veikir til að ferðast til Grænlands. Steindór hafði lýst
áhyggj um sínum af ýmsu sem snerti Grænlandsmálið fyrir amt-
manni en í þessu bréfi, sem Gyldencrone greindi frá, virðist Steindór
hafa farið framhjá amtmanni og leitað beint til stiftamtmanns. Í bréfi
til amtmanns þann 1. september 1729 lýsti Steindór áhyggjum af
afdrifum undirsáta sinna er þeir yfirgæfu ábýlisjarðir sínar á fardög-
um vorið 1730 og hálfum mánuði síðar viðraði Jóhann Gottorp,
sýslumaður í Snæfellsnessýslu, þetta einnig við amtmann en hafði
ekki nefnt það í fyrri bréfum sínum til hans. Má telja sennilegt að
Steindór hafi rætt þetta við Gottorp. Fuhrmann hafði lýst því yfir í
bréfi til Grænlandsnefndarinnar að nauðsynlegt væri að beita
Íslendinga hótunum til að fá þá til að ganga að tilboðinu. Árið 1730
var Fuhrmann amtmanni svo gert að deila framkvæmd málsins hér
á landi með landfógeta og sýslumanni Árnessýslu.
Í bréfapakkanum sem Fuhrmann sendi Gyldencrone þann 19.
september 1729, með lista yfir þá sem góðfúslega vildu flytja til
kristrún halla helgadóttir60
54 Hannes Þorsteinsson, „Grænlandsþættir m. fl.“, bls. 208.
55 Gad, Grønlands Historie II, bls. 201.
56 ÞÍ. Stiftamt. I nr. 8 — Bréfabækur stiftamtmanna 1720–1803, bls. 78–79.
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 60