Saga - 2017, Page 126
nýrra safna í fjórðungnum. Söfnin sem voru á verkefnalista SAL
voru Bustarfellsbær og minjasafn að Bustarfelli, Skjalasafn á Egils -
stöðum, Minja- og landbúnaðarsafn á Skriðuklaustri, Skógminja safn
á Hallormsstað, Náttúrugripa- og byggðarsögusafn í Neskaupstað,
Sjóminjasafn á Eskifirði, kirkjusögusafn í Eydölum og Byggðasafn
á Höfn í Hornafirði. Hér verður ekki rakin nánar saga starfsemi SAL
eða saga annarra safna á starfssvæði Safnastofnunarinnar né hug-
mynda um söfn önnur en Minjasafn Austurlands, en sumt af því
sem hér er talið upp komst á laggirnar og annað ekki. Eins og áður
gat var hugmyndin á stefnuskrá SAL að Minja- og landbúnaðarsafn
yrði á Skriðuklaustri og yrði það meginsafn minja frá 19. öld eða
eldri, svo og safn um sveitalíf og landbúnaðarsögu og yrði stöðugt
við það aukið.25
Stjórn Safnastofnunar ákvað þegar á fyrsta fundi sínum haustið
1972, í samráði við stjórnarformann safnsins og tilraunastjórann á
Skriðuklaustri, að boða til fundar um þann rembihnút sem hús -
næðismál Minjasafnsins voru föst í. Á fundinn voru einnig boðaðir
fulltrúar stjórnmálaflokka í kjördæminu og mættu fjórir varaþing-
menn. Niðurstaðan eftir umræður um Skriðuklaustur var sú að leita
liðsinnis alþingismanna við lausn málsins, í þágu Minjasafnsins, og
voru þrír menn kjörnir í nefnd til að vinna að málinu, þeir Hjörleifur
Guttormsson, Pétur Blöndal og Sigurður Blöndal. Í skrifum um
málið árið 1976 segir Hjörleifur Guttormsson að nefndin hafi með
liðveislu alþingis- og embættismanna fljótlega náð umtalsverðum
árangri og vonaðist hann til að innan tíðar yrðu þáttaskil í sögu
Minjasafnsins.
Nefnd þessi gekkst fyrir fundi í Reykjavík, með alþingis mönn -
um Austurlandskjördæmis, seint í nóvember 1972 og sóttu hann
einnig ráðuneytisstjórarnir Birgir Thorlacius og Gunnlaugur Briem
fyrir hönd menntamálaráðuneytisins og svo Jónas Jónsson fyrir
hönd landbúnaðarráðherra. Var gengið frá samkomulagi um mál -
efni „Gunnars-bæjar“ á Skriðuklaustri sem kvað á um að land-
búnaðarráðuneytið mundi reisa starfsmannahús að Skriðuklaustri
miðað við þarfir búrekstursins og „miðað við það, að íbúðarhúsið,
sem gefið var, verði afhent menntamálaráðuneytinu til þeirra nota,
er síðar greinir.“ Með öðrum orðum þá skyldu yfirráð landbúnaðar -
unnur birna karlsdóttir124
25 Um safnamál á Austurlandi fram á 8. áratug 20. aldar og upphafsár SAL,
markmið og framvindu áfanga, sjá: Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á
Austurlandi“, bls. 1–33.
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 124