Saga - 2017, Síða 127
ráðuneytisins og starfsmannahald tilraunabúsins í Gunnarshúsi
lögð niður og húsið tekið undir menningartengda starfsemi og vera
í umsjá menntamálaráðuneytisins. Eru þau not svo talin upp og
hljóðaði málsgreinin um starfsemi og hagsmuni Minjasafns Austur -
lands þar innan veggja á þá leið að „Menntamálaráðuneyti afhendi
Safnastofnun Austurlands Skriðuklausturshúsið til umsjár og afnota
fyrir Minjasafn Austurlands, búnaðarsögusafn o.fl. Í Minjasafninu
skal vera sérstök deild helguð frú Franziscu og Gunnari skáldi
Gunnarssyni.“ Segir að lokum í þessu skriflega samkomulagi að
menntamálaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og alþingismenn
Austur landskjördæmis hafi komið sér saman um að fylgja þeirri
stefnu um Skriðuklaustur er samkomulagið setur, að áskildu sam -
þykki þeirra hjóna Gunnars og Franzisku. Samkomulag þetta stað -
festi Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra í byrjun desember
1972 með undirskrift.26 Þáttur landbúnaðarráðuneytisins í málinu
var að í yfirlýsingu, undirritaðri af landbúnaðarráðherra í apríl 1973,
er því heitið að landbúnaðarráðuneytið hafi ákveðið að afhenda
Gunnarshús menntamálaráðuneytinu, í þeim tilgangi að það geti
nýst Safnastofnun Austurlands undir Minjasafn Austur lands. Skyldi
afhending þess fara fram þegar komið hefði verið upp nægilegum
byggingum fyrir tilraunastarfsemi á Skriðuklaustri, sem stefnt var
að að gæti orðið á tímabilinu 1974−1975. Skemmst er frá því að segja
að þessi stefna eða fyrirheit runnu út í sandinn.27 Málið var áfram í
pattstöðu þrátt fyrir áðurnefnt bindandi samkomulag milli ráðu -
neyta, staðfest af menntamála-, landbúnaðar- og fjármálaráðherra,
um að loks skyldi farið að óskum gefendanna um með ferð Gunnars -
húss og það afhent undir Minjasafn Austurlands og ýmsa aðra
menningarstarfsemi. Árið 1976 var staðan sú að tvívegis hafði verið
veitt fé á fjárlögum til nýbygginga fyrir tilraunastöðina en engin
hreyfing var enn á framkvæmdum þremur árum eftir að áðurnefnt
samkomulag var gert, þrátt fyrir fjárveitingar og eftirrekstur, svo
notað sé orðalag Hjörleifs Guttormssonar, sem segir á sama stað árið
1976 að ekki þurfi „að lýsa því, hversu tilfinnanleg þess töf og van -
efndir eru fyrir málefni minjasafnsins“.28
gjöf skáldsins og húsnæðisvandi … 125
26 MA, Safnastofnun Austurlands. yfirlit um störf stjórnar 1972–73 (afrit), bls. 2–3.
27 Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á Austurlandi“, bls. 27–30.
28 Hjörleifur Guttormsson, „Þjóðminjavernd á Austurlandi“, Þjóðminjasýning SAL
1976. 19. júní – 8. ágúst í skólanum á Egilsstöðum, án blaðsíðutals.
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 125