Saga - 2017, Page 186
„mjög greiðlega og án nokkurra umsvifa“ (bls. 249–250). Velta má fyrir sér
með hvaða hætti sagnfræðilegum gögnum er safnað og hvaða gleraugum
rýnt er í þau, í þessu tilfelli fæðingarsögur sem þar birtast jafnvel í einni
setningu. Spyrja má hvaða sjónarhorn gildir þegar greining fer fram og
hvort koma mætti auga á fleiri frásagnir um eðlilegar fæðingar og einnig
um aðkomu yfirsetukvenna að erfiðum fæðingum. Ennfremur um feður og
þátttöku þeirra, hlutverk þeirra í fæðingarhjálp á þessu rannsóknartímabili
og síðar.
Samtal við doktorsefnið
Við lestur ritgerðarinnar vakna spurningar sem fróðlegt hefði verið að fjalla
nánar um í ritgerðinni og mætti gera í þessari doktorsvörn, til að mynda
hvernig hugtakið fæðingarhjálp var skilgreint og notað; hvort framfarir
urðu á heilsufari mæðra og barna á rannsóknartímabilinu; hver þróun ný -
bura-, ungbarna- og mæðradauða var, bæði fyrir og eftir tímabilið; hvaða
þættir aðrir en menntun höfðu áhrif á fagvæðingu fæðingarhjálpar, svo sem
breytingar á lagaramma, launamál, valdajafnvægi kynjanna, yfirráð og
ábyrgð faggreina; hvaða lærdóm má draga af niðurstöðunum fyrir nútím -
ann, til dæmis um stöðu kynjanna í samhengi við hugtakið kyngervi, áhrif
á faglega þróun í fæðingarhjálp, reynslu mæðra og feðra, menntun og sam-
starf lækna og ljósmæðra; hvaða rannsóknir mætti gera um efnið í fram -
tíðinni, til dæmis finna og greina sagnfræðileg gögn, persónuleg bréf eða
skýrslur, frá fleiri sjónarhornum og með fjölþættum aðferðum í þverfaglegri
samvinnu hug- og heilbrigðisvísinda.
Lokaorð
Erla Dóris hefur náð að safna saman þekkingu sem lýsir, frekar en að hún
greini á djúpan hátt, mörgum hliðum fæðingarhjálpar á tímabilinu 1760−
1880. Sagnfræðileg rannsókn um fæðingarhjálp frá upphafsárum ljós mæðra -
kennslu er hjálpleg til að skilja betur hvaðan við ljósmæður komum og
hvert ung grein innan háskólasamfélagsins stefnir, og þakka ég Erlu Dóris
fyrir hennar framlag og óska henni til hamingu með „barnið“.
Víða í verkinu má leita fanga fyrir ljósmóðurfræðina, til dæmis hvað
varðar rannsóknir og kennslu ljósmæðra um uppruna sinn, menningu,
mennt un og starfsumhverfi. Rannsóknin getur verið samskonar lausnar-
steinn og sá sem notaður var í fæðingarhjálp. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar
segir að lausnarsteinninn hafi verið til að leysa konu „sem á gólfi liggur
vel og skjótt frá fóstri sínu, og þarf þá ekki annað en annaðhvort leggja
hann á kvið hennar eða henni er gefið vatn, aðrir segja volgt fransk -
vín hvítt að drekka, sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn í.“
andmæli184
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 184