Saga - 2017, Blaðsíða 207
síst embættisstarfa sem sýslumanns. Þar er teflt saman mörgum mismun -
andi heimildum, dánarbúum og öðrum sýsluskjalaheimildum og þá er vel
völdum kvæðum Jóns skeytt inn í frásögnina eftir því sem við á. Ekki er úr
miklu að moða frá uppvaxtarárum Jóns en eftir því sem sögunni vindur
fram verður hún ítarlegri með tilliti til dagsetninga og ferða Jóns, t.d. um
Barðastrandarsýslu, til og frá Danmörku og um Borgarfjörð. Þar er að mestu
stuðst við bréf Jóns sjálfs. Lesendur þurfa að vissu leyti að vera „á tánum“,
ef svo má að orði komast, því farið er nokkuð hratt yfir sögu í þessum inn-
gangskafla. Á sama tíma gæti sumum þótt nokkrum ítarupplýsingum of -
aukið, þar sem ekki er gott að sjá hvert sé vægi þess að Jón hafi um sumarið
1843 tekið með sér „sjö eintök af sjötta árgangi Fjölnis“ til sölu á Íslandi (bls.
18) eða hvers vegna mikilvægt sé að telja upp flestallt heimilisfólk í Haga á
Barðaströnd árið 1860 (bls. 45–46). Ítarupplýsingar á borð við þessar eru þó
ekki þess eðlis að efnið sé á tvist og bast eða að reynt sé að teygja lopann í
allar áttir sökum heimildaleysis. Inngangur verksins er þvert á móti vand-
lega unninn og þægilegur aflestrar. Með honum fæst ágætt yfirlit yfir líf Jóns
Thoroddsens sem einstaklings og virks þátttakanda í íslenskum þjóðfélags-
málum og ennfremur sem hluta af nokkuð efnaðri fjölskyldu á Vesturlandi
á 19. öld. Þá er bæði frásögnin og heimildanotkun gaumgæfilega tengd við -
fangsefninu og persónum í hans lífi.
Heilt yfir er inngangurinn vel útfærður og ágæt innreið í lestur á upp-
skrifuðum frumheimildum sem fylgja á næstu 248 blaðsíðum. Gaman hefði
þó verið að sjá frekara álit höfundar á viðfangsefninu. Ekki er hægt að segja
að tekin sé afdráttarlaus afstaða til þess hvaða mann Jón Thoroddsen hafði
að geyma nema að einhverju leyti á blaðsíðu 11, þar sem segir annars vegar
að Jón hafi verið „frábær sagnamaður og næmur samfélagsrýnir, gaman-
samur og alvörugefinn í senn, þjóðlegur í efnisvali en alþjóðlegur í efnistök-
um“ og hins vegar „vinur vina sinna, hnyttinn og skemmtilegur, angurvær
við unnustu sína og afsakandi við dóttur þeirra [Ólafar Hallgrímsdóttur
Thorlacius], ákafur í lýsingum á atvikum og aðstæðum, stundum hrokafull-
ur, sjaldan dapur“. Þessar ályktanir eru m.a. dregnar af lestri bréfanna en
kunna að virðast heldur almennar. Ýmislegt fleira vekur athygli hvað varðar
þá mynd sem er dregin upp af Jóni í inngangi verksins, án þess þó að dregn-
ar séu fram nokkrar niðurstöður, t.d. hversu hlédrægur hann virðist hafa
verið og ekki „haft sig mjög í frammi á vettvangi Hafnarstúdenta“ (bls. 21)
en síðan verið nokkuð virkur í þjóðfélagsmálum á Íslandi þegar fram í sótti,
auk þess sem hann hafi sýnt vandvirkni og samviskusemi í störfum sínum
sem sýslumaður (bls. 54–56). Þá birtast mörg eftirtektarverð atriði í inngangi
sem áhugavert hefði verið að sjá frekari greiningu á, t.d. varðandi efnis-
menningu þegar fjallað er um fata- og skókaup Jóns í kaupmannahöfn (bls.
30 og 32) eða um embættisfærslur Jóns sem sýslumanns. Því er vitaskuld
ekki til að heilsa í verkinu enda er það tæpast markmið bókarinnar þar sem
hún er heimildaútgáfa. Efniviðurinn liggur hins vegar í uppskriftunum sjálf-
ritdómar 205
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 205