Saga - 2017, Page 208
um, ekki aðeins um efnismenningu 19. aldar eða embættisfærslur Jóns sem
sýslumanns heldur einnig um ferðalög, hugarfar og tilfinningar.
Eins og áður segir koma fyrir sjónir lesenda uppskriftir á 147 bréfum, en
þar á meðal er ein auglýsing frá Jóni um viðbrögð stjórnvalda við fjár kláð -
anum, þegar hann var sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu. Flest bréfin eru frá
árunum 1863–1868, þ.e.a.s. frá árinu þegar móðir Jóns, Þórey Gunnlaugs -
dóttir, og tengdafaðir hans, Þorvaldur Sívertsen, létust og til dánarárs Jóns
sjálfs. Tæplega helmingur bréfanna er frá þessum árum eða 84 talsins.
Uppskriftir bréfanna eru vandlega settar fram og standa ekki einar og sér
án skýringa. Fyrir hvert bréf er stuttur formáli með skýringum og vísunum
til heimilda en gjarnan er hafður sá háttur á að nokkur bréf í einu — sem þá
tengjast annaðhvort viðkomandi bréfritara eða því efni sem um ræðir hverju
sinni — eru skýrð í einum og sama formálanum. Höfundur greinir rækilega
frá þessu í inngangi (bls. 63–64). Fyrir vikið verður lestur bréfanna sjaldan
hvikull eða ístöðulaus, ekki aðeins vegna skýringa höfundar heldur einnig
og ekki síður vegna þess hve haganlega bréfin eru sett upp í takt við það
þema sem haft er í inngangi. Sendibréf sem heimildir eru aftur á móti
sneisafull af upplýsingum og efni sem getur farið langt út fyrir þema og eig-
inlegt efnisval. Það eru því ótal málefni 19. aldar fólks á Íslandi sem ber fyrir
augu við lestur bréfanna, svo sem deilur um jarðaábúð á Vesturlandi (nr. 6,
8–13), málefni um lausamennsku og vistarráð (nr. 31 og 33), brúðkaups -
veisla í Flatey (nr. 35), hundahald (nr. 87) og magntölur yfir áfengi á
Suðvesturlandi (nr. 132) svo fátt eitt sé nefnt. Ein markverðustu bréfin, sem
koma fyrir í verkinu, eru án efa þau sem vörðuðu elstu dóttur Jóns, Elínu
(sjá t.d. nr. 19, 56 og 62). Þau veita lesendum einstaka innsýn í samband
föður og dóttur á 19. öld sem aðeins þekktust á fullorðinsaldri. Þó að bréf
frá Elínu sjálfri vanti er afar áhugavert að sjá ekki aðeins Jón tjá tilfinningar
sínar í bréfsformi, vegna sambands og/eða sambandsleysis milli sín og dótt-
ur sinnar, heldur einnig Þóreyju, móður Jóns og ömmu Elínar, fjalla um
sama efni — löngu áður en Jón skrifaði Elínu í fyrsta skipti (nr. 19 og 56).
Margvísleg efni sendibréfa ráðast ekki aðeins af eðli bréfa sem heimilda
heldur einnig af fjölda bréfritara í verkinu. Auk Jóns Thoroddsens er 29 bréf-
ritara að finna í útgáfunni. Jón er höfundur 94 þeirra bréfa sem birt eru og
títtnefndrar auglýsingar. Þar af virðast 23 bréfanna koma úr bréfabókum
sýslumannsembætta. Þau eru því í raun afrit bréfa en ekki frumrit. Það sama
virðist eiga við um bréf skrifuð af sr. Friðriki Eggerz og sr. Hálfdani Einars -
syni. Sjálfsagt er að halda þeim með í útgáfunni enda má gera ráð fyrir að
afritin endurspegli þau bréf sem send voru, miðað við bréfabækurnar á sín-
um tíma, þó að einstaka misræmis geti gætt þegar frumritin eru borin
saman við afritin (sjá t.d. bls. 254). Því miður fer lítið fyrir aðferðafræðilegri
umræðu varðandi val og efnisúrvinnslu bréfanna, þótt reyndar sé minnst á
kveikjuna að bókinni (bls. 61–62), en segja má að í verkinu sé fylgt eftir hug-
myndum um „bréfasafn“ (e. epistolarium) þar sem leituð eru uppi öll bréfa-
ritdómar206
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 206