Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 148
147
Lífshlaup Ragnars
Hafsteins
Valdimarssonar
frá Hólmavík
Karl E. Loftsson
frá Hólmavík
Ragnar Hafsteinn Valdimarsson fæddist í Bolungarvík 20. júní 1918
(d. 15. júlí 1996). Foreldrar hans voru Herdís Marísdóttir og Valdimar
Samúelsson. Hálfsmánaðar gamall var hann tekinn í fóstur að Hvalsá í
Steingrímsfirði af þeim hjónum Aðalheiði Aðalsteinsdóttur og Ormi
Samúelssyni, en Valdimar faðir Ragnars var bróðir Orms. Fósturbræður
hans eru Benedikt Guðbrandsson, tveimur árum eldri en Ragnar, Jón
Ólafur og Zakarías Halldór, sem báðir voru yngri. Aðalheiður Benedikta
og Jón Ormar, börn Orms og seinni konu hans Jóhönnu Daníelsdóttur,
voru líka fóstursystkini hans. Árið 1924, þegar Ragnar var sex ára gamall,
var Aðalheiður farin suður á Vífilsstaði veik af berklum og Ormur taldi
sig ekki geta haft Ragnar hjá sér lengur. Hann fór því til Bolungarvíkur í
þeim tilgangi að fara með hann aftur til foreldra sinna. Nóttina sem Ormur
dvaldi á Ísafirði fannst honum að ekki væri rétt af sér að hafa farið með
drenginn vestur, fór daginn eftir til Bolungarvíkur og sótti drenginn. Hann
gat sem sé ekki hugsað sér að skilja hann eftir.
Ragnar ólst upp á Hvalsá til 11 ára aldurs, en Ormur flutti til Hólma-
víkur skömmu eftir að Aðalheiður kona hans dó úr berklum. Hann sagði
mér frá því að hann hefði verið lánaður upp að Felli í Kollafirði sex ára
gamall til að gæta fráfærukinda, þ.e. þegar búið var að mjólka ærnar að
morgni þá var farið með þær til beitar en lömbin voru ekki með. Það
fannst honum ekki skemmtileg vist, sagðist hafa grátið á hverjum degi og
leiðinlegast hafi verið þegar þokan lá yfir og hann óviss með að rata heim
með ærnar. Hann var í nokkurn tíma í Arnkötludal hjá Magnúsi Jónssyni
og Guðrúnu Kristmannsdóttur, hann minntist þeirra fyrir hvað þau voru