Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 170
169
Hreðavatni og horft yfir í Stafholtstungurnar en þar til vinstri sést heim
að Varmalandsskóla. Brátt var komið að Svignaskarði, en þar skammt frá
blasir við talsverður greniskógur, sem gott er að stansa í. En áfram skal
haldið fram hjá Galtarholti, niður undir Eskiholt og þar beygt til vinstri.
Innan skamms er komið að Ferjukoti við Hvítá og þá haldið yfir Hvítár-
brúna fram hjá Hvítárvöllum og síðan sem leið liggur inn í Lundarreykja-
dalinn. Hann var síðan ekinn alla leið inn á Uxahryggjaleið en þar beygt
til hægri og ekið áfram fram hjá Ármannsfelli niður í Þingvallasveit. Þaðan
liggur svo nýr vegur austur að Laugarvatni, en þar er þekkt skólasetur,
menntaskóli og grunnskóli auk fleiri skóla. Áður fyrr voru þar héraðsskóli,
íþróttakennaraskóli, húsmæðraskóli og ef til vill fleiri skólar. Þar er líka
heitur hver úti í vatninu eða við það og þar er gott gufubað. Ákveðið var
að við gistum í grunnskólanum, en það er lítill, snotur skóli. Það var hann
að minnsta kosti þegar ég heimsótti hann fyrir alllöngu síðan. Ekki veit
ég hvort kennt er enn í því húsi eða hvort skólinn hafi verið sameinaður
öðrum skóla í Árnessýslu. Okkur var vel tekið af skólastjóra skólans, Guð-
mundi Valtýssyni, og áttum við þar indæla nótt í nýlegu og björtu húsi.
Morguninn eftir var svo lagt af stað heimleiðis. Ekið var aftur á Þingvöll
og síðan Mosfellsheiðina, uns beygt var til hægri og ekið ofan í Kjósina og
Hvalfjörðinn. Síðan ekið sem leið lá inn með firðinum og stansað af og til,
svo sem við Staupastein og hjá Hvalstöðinni. Þar stóð veitingaskáli, sem
gott var að stansa hjá og fá sér einhverja hressingu og ekki síður að komast
á salerni. Fjallið Þyrill gnæfir þarna yfir og úti á firðinum er Harðar hólmi
og fleiri sögufræg kennileiti. Ekki er þó hægt að stansa víða. Við Ferstiklu
getur á vinstri hönd að líta Saurbæjarkirkju, kirkju Hallgríms Péturssonar
sálmaskálds, en þar er talið að hann hafi ort Passíusálmana. En nú skal
haldið áfram og innan stundar blasir Hafnarfjallið við og þá er stutt að
Hvanneyri og Hvítá og þá vorum við innan ekki mjög langs tíma komin
heim í Hrútafjörðinn.
Fimmta ferðin var farin á Snæfellsnesið sunnanvert til að byrja með.
Farið var framhjá Arnarstapa, Hellnum, Lóndröngum og Öndverðanesi og
síðan sem leið lá að Hellissandi. Þaðan var ekið fyrir Ólafsvíkurennið til
Ólafsvíkur, en þar áttum við gistingu vísa í grunnskólanum. Veðrið var
mjög gott, sól og blíða. Reyndar var komið fram í júnímánuð og eftir
að búið var að borða voru sum elstu börnin ekki tilbúin að sofna strax.