Strandapósturinn - 01.06.2012, Síða 20
20
„Mjög sjaldan búmmað“
Menn urðu að vera mjög samtaka og samhentir í þessari aðgerð
til þess að allt heppnaðist sem best svo að síldartorfan tapaðist
ekki út úr nótinni eða undir hana. Köstin voru misstór, allt frá
slatta, 10–15 tunnur, upp í 200–300 tunnur. Mjög sjaldan var
„búmmað“ en það þýddi að engin síld náðist, og nótin var þá
dregin sem hraðast aftur upp í Héðin. Þegar tekin var síld úr
nótalás var notuð úrkastsnót sem var lítil og henni kastað úr
Gunnu inn í lásinn. Ég man að Mummi sagði að úrkastsnótin
ætti ekki að koma upp með meira en 40–60 tunnur sem passaði
í Héðin. Þrengt var að síldinni og henni ausið (háfað) upp í
Héðin af tveimur mönnum með stálnetskörfu á milli sín þannig
að sjórinn rann strax úr körfunni áður en yfir borðstokkinn
kom. Þegar leið á sumarið gerðist það æ oftar að sprettharður
gæðafiskur slæddist í nótina og varð þá oft harður atgangur því
hann vildi stökkva yfir korkateininn. Eitt sinn man ég að Jónas
stakk sér á eftir slíkum flóttafiskum en bar lítið úr býtum nema
að verða sjóblautur þótt sprettharður sundmaður væri sjálfur.
Veiðisvæðin í firðinum náðu frá Drangsnesi og inn í botn og út
fyrir Hólmavík að sunnanverðu. Veiðistaðir sem kastað var á voru
aðallega víkur svo sem Skeljavík, Hólmavík milli Sandskers og
bryggju, Vallnesvík, innan við Innri-Ós undir Fellabökunum, út af
og innan við Grænanes, hjá Bassastöðum, milli Sandness og
beygjunnar upp á Bjarnarfjarðarháls áður en vegurinn kom þar á
milli, innan við Reykjanesið þar sem heitir Paradís, Hveravík og
kringum Hamarsbælið.
Samkeppni við Einar Hansen
Samkeppnisaðilinn (konkurransen) þetta sumar var Einar
Hansen, norskur sómamaður sem flust hafði til Hólmavíkur
ungur en náði aldrei fullu taki á íslenskunni, og „Dengsi minn“,
sonur hans. Skemmtilegu atvikin tengdust yfirleitt samkeppninni
við þá feðga og verður nú greint frá nokkrum.
Eitt sinn erum við að koma innan úr firði með Héðin fullan af
síld til löndunar á Hólmavík. Á slíku stími voru yfirleitt allir á
útkíkki eftir síld og er við komum að Vallnesvíkinni sjáum við
Einar Hansen handan fjarðar við Sandnes á leið inn fjörðinn.
Trúlega hefur eitthvað truflað okkur eða glampinn á sjónum ekki