Strandapósturinn - 01.06.2012, Blaðsíða 46
46
ekkert var að sjá nema þokuna og rigninguna út um framrúðuna
þar sem vinnukonurnar unnu af kappi. Hliðarrúðurnar voru
brúnar af for, út um þær sást ekki neitt.
Á norðurbraut við Hvammstanga kvöddum við bílstjóra út að
ná í dótið okkar, þar beið bíll eftir farþegum sem ætluðu með
flóabátnum Hörpunni yfir Húnaflóa. Bílstjórinn fann ekkert,
ekki nokkurn skapaðan hlut sem tilheyrði okkur. Við skildum
þetta alls ekki og bílstjórinn glotti kvikindislega þegar við
neituðum því að hafa sett dótið við bílinn um morguninn. Gátan
var ráðin, allur farangurinn á sama stað inn á stöðinni og við
höfðum sett hann kvöldið áður. Og sumarkaupið okkar ósnert í
umslögum ofan á í trétöskunni minni, sem lásinn var bilaður á og
því reyrð aftur með snæri.
Ég hef aldrei getað botnað í því, þegar ég hugsa aftur í tímann,
hvers vegna í ósköpunum við settum peningana, 2000 kr.,
sumarhýruna, í töskuna, en ekki hvor sitt kaup í sitt veski. Við
hljótum að hafa verið annars hugar er við kvöddum Lauga og
Laugamenn.
Bílstjórinn sagði að við hefðum átt að sjá um að koma dótinu
út að bílnum og við urðum að bíta í það súra epli að þetta væri
aðeins okkar eigin heimsku að kenna.
Vorum við heldur framlágar er við röltum niður bryggjuna og
urðum að segja strákunum á Hörpunni hrakfarir okkar. Skemmtu
þeir sér konunglega á okkar kostnað en þegar skipstjórinn treysti
sér til að tala fyrir hlátri, fór hann upp á símstöð og hringdi
norður á B.S.A. Þar var allt heila klabbið auðvitað í geymslunni,
föt, sængur og sumarhýran.
Var nú lagt í flóann og óneitanlega var gott að heyra vestfirskuna
aftur og sjá strákana ganga um dekkið eins og slétt stofugólf væri,
þó báturinn steypti stömpum, ruggaði og rambaði til og frá, það
hefði víst ekki orðið mikið úr blessuðum dalakútunum okkar, gott
þeir voru ekki með.
Pabbi var á meðal þeirra sem tóku á móti flóabátnum á
Drangsnesi. Hann ætlaði að hjálpa okkur með dótið en þegar
hann heyrði hvað um það hafði orðið, varð honum orðfall.
Að einn kvenmaður gæti verið svona heimskur það hefði hann
skilið, en tveir, nei það var of mikið af því góða.