Strandapósturinn - 01.06.2012, Blaðsíða 39
39
komnar langleiðina suður. Þar áttum við nóg af skyldfólki til að
vera hjá og hefðum getað átt skemmtilegt kvöld í stað þess að
hossast þarna og hristast með þessum gamla skrögg. Þögðum við
lengi vel og nöguðum okkur í handarbökin en sáum svo að ekki
var til neins að sýta og segja ef-ef-ef, tókum því lagið og hresstumst
nokkuð af því.
Vestur að Kletti komum við ekki fyrr en eftir miðnætti og voru
allir þar háttaðir.
Vöktum við upp og vorum boðnar í sparistofuna þar sem við
hreiðruðum um okkur, sóttum dúnsængurnar okkar út í poka.
Við háttuðum ekki, tókum bara af okkur skóna, en ekki dugði
það til, norðannæðingurinn blés inn um gluggann og allar rifur
á þessari óupphituðu stássstofu, svo við læddumst út undir vegg
þar sem farangur okkar var og Veiga dró upp úr tösku sinni bæði
prjónaskyrtur og prjónabrækur sem gamla fóstra hennar hafði
búið hana út með á skólann, en Veiga auðvitað ekki verið þekkt
fyrir að nota, en nú komu þessar flíkur í góðar þarfir. Klæddum
við okkur í hverja flíkina utan yfir aðra og skulfum okkur til hita
dálitla stund, kúrandi saman undir tveimur sængum en sofnuðum
þá vært og vöknuðum sjóðheitar og hressar við að skólasystir
okkar færði okkur kaffið í rúmið.
Elskulegt var fólkið og vildi gjarnan allt fyrir okkur gera, þrátt
fyrir fátæktina sem skein úr hverju horni.
Hríðarslydda var, en við máttum ekkert vera að því að hugsa
um veðrið, heim urðum við að komast. Bóndinn lagði því reiðing
og hnakka á hesta sína og flutti okkur að Ingunnarstöðum, Veiga
var tengd því fólki og treysti á fyrirgreiðslu þar.
Bóndinn á Ingunnarstöðum hló dátt að ferðaflandri okkar,
sagðist ekki hreyfa sig þann daginn, kannski á morgun, okkur
lægi ekkert á, öll ævin fram undan. Leist okkur ekki meir en svo á
léttlyndi bónda en fundum brátt að hann var bara að stríða okkur.
Sátum svo í fagnaði þennan dag og var líkast því að við værum
aufúsugestir en ekki flökkukindur, sem við þó vorum. Ásta-
Brandur kom í heimsókn þennan dag, og neita ég því ekki að
hálfgerður stuggur stóð mér af honum.
Morguninn eftir lagði bóndi á hesta sína. Við kvöddum
heimafólk með kurt og pí og lögðum nú á Tröllatunguheiði. Ekki